Safneignin

Safneign Gerðarsafns telur um 4.250 verk. Uppistaðan er um 1.400 verk eftir Gerði Helgadóttur, um 300 verk eftir hjónin Barböru og Magnús Á. Árnason og 1.640 verk eftir Valgerði Briem, aðallega teikningar. Önnur verk sem ýmist hafa verið keypt eða gefin til safnsins eru um 650 að tölu. 

BÁ-Melaskólinn-málar og VM horf.jpg

Barbara Árnason (1911-1975)

Árið 1983 fékk Kópavogsbær veglega listaverkagjöf úr Minningarsjóði Barböru og Magnúsar Á. Árnason Kópavogsbæ. Alls voru þetta tæplega 300 listaverk, þar af um 100 verk eftir Barböru, teikningar, tréstungur, vatnslitamyndir, þrykkjur og vatnslitaþrykk.Árið 1983 fékk Kópavogsbær veglega listaverkagjöf úr Minningarsjóði Barböru og Magnúsar Á. Árnason Kópavogsbæ. Alls voru þetta tæplega 300 listaverk, þar af um 100 verk eftir Barböru, teikningar, tréstungur, vatnslitamyndir, þrykkjur og vatnslitaþrykk.

Barbara Moray Williams fæddist í Suður-Englandi 19. apríl 1911. Hún var afburðarnemandi í Listaháskóla í Lundúnum. Til Íslands kom hún fyrst árið 1936 og hitti þar verðandi eiginmann sinn Magnús Á. Árnason, listamann. Árið eftir gengu þau í hjónaband og bjuggu fyrstu árin í Reykjavík en fluttust í Kópavoginn sumarið 1959 og voru búsett þar síðan.
Barbara og Magnús Á Árnason iðkuðu bæði list sína af miklum dugnaði allt sitt líf og eftir þau liggur mikill fjöldi verka. Í kjölfarið fluttust ýmsir fleiri listamenn í Kópavog. Barbara andaðist í árslok 1975 og var jarðsungin frá Kópavogskirkju 9. janúar 1976. 
Verk Barböru eru þekkt af þjóðinni allri. Auk fjölda sýninga sem hún helt hérlendis og yfirlitssýninga sem haldnar voru henni til heiðurs tók Barbara þátt í fjölmörgum samsýningum erlendis og átti myndir á alþjóðlegum grafíksýningum.
Barbara hafði frá því að hún var barn skrifað og skreytt bækur. Í æsku höfðu hún og tvíburasystir hennar Ursula það fyrir sið að skiptast á bókum á afmælisdögum og á jólum, sem þær sömdu og myndskreyttu, en báðar ætluðu að verða rithöfundar. Barbara var snjall teiknari og átti auðvelt með að breyta um stíl eftir efni og anda þeirra bóka sem hún myndskreytti hverju sinni. Fínleg og vönduð vinnubrögð ásamt næmri tilfinningu fyrir skreyti einkenna bókaskreytingar Barböru, og þær eru jafnan taldar marka tímamót í íslenskri bókaútgáfu.

Í tilefni aldarafmælis listakonunnar 19 apríl 2011 var yfirlitssýning með verkum hennar opnuð í Gerðarsafni. Yfir 250 verk eftir listakonuna voru til sýnis auk fjölda myndskreyttra bóka, jóla- og tækifæriskorta, jólamerkja og fleira sem Barbara hefur skreytt. Mörg verkanna á sýningunni voru í einkaeigu og höfðu aldrei áður komið fyrir almenningssjónir. 
Í vestursal voru vatnslitamyndir eftir Barböru en þær eru m.a. vitnisburður um þær byggðir Íslands sem hún heimsótti ásamt eiginmanni sínum á árunum 1937 til 1975. Síðustu vatnslitamyndirnar málaði hún á Þingvöllum sumarið áður en hún lést. Þá málaði hún barnamyndir, sem urðu mjög eftirsóttar, sem og myndir af dýrum og villi- og stofublómum. 
Í austursal mátti m.a. sjá verk sem Barbara vann úr lopa. Til þessara verka teljast bæði veggteppi og tískuvara. Lopaverk Barböru eru eitt af því frumlegasta sem lagt hefur verið af mörkum til íslenskrar vefjarlistar á síðustu öld. Hún sýndi þau margsinnis í París og seldi vel.
Á neðri hæð Gerðarsafns voru verk eftir Barböru sem sýndu hvernig henni tókst að ná undraverðum tökum á hinni ofurnákvæmu og vandasömu tækni tréstungunnar. Barbara lagði með tréstungunum grunninn að íslenskri þrykk list og telst meðal brautryðjenda á því sviði hér á landi.

Magnús Á Árnason.jpg

Magnús Á. Árnason (1894-1980)

Magnús Ársæll Árnason (1894-1980) var málari, myndhöggvari, tónskáld og rithöfundur. Þekktasta höggmynd Magnúsar er líklega Minnismerki yfir Sigurbjörn Sveinsson frá árinu 1952. Brjóstmyndir Magnúsar af skáldum eru einnig vel þekktar og þykja heilsteypt og falleg verk. Afkastamestur var Magnús í málverki. Flestar myndir hans eru af íslensku landslagi enda var hann mikill náttúruunnandi. Magnús var fyrstur til að halda myndlistarsýningu í Kópavogi, 12. nóvember 1960 á 2. hæð í Félagsheimili Kópavogs, sem þá var óinnréttað. Á sýningunni voru 60 málverk og 8 höggmyndir. Magnús var áhrifamaður í hinum ýmsu samtökum íslenskra myndlistarmanna og var fyrsti formaður í Myndhöggvarafélagi Reykjavíkur, sem stofnað var 1972. Árið 1983, þremur árum eftir andlát Magnúsar, færði Minningarsjóður Barböru og Magnúsar Á. Árnasonar Kópavogsbæ listaverkagjöf með um 300 listaverkum. Þar af voru 200 eftir Magnús, málverk, höggmyndir og teikningar. 

Valgerður Briem 066-050.jpg

Valgerður Breim (1914-2002)

Árið 2009 færðu börn Valgerðar Briem myndlistarkonu, Páll Bergsson, Valgerður Bergsdóttur og Þorsteinn Bergsson, Gerðarsafni að gjöf teikningasafn móður sinnar.

Árið 2006 var haldin yfirlitssýning á verkum Valgerðar Briem í efri sölum Gerðarsafns. Í framhaldi af henni gáfu börn Valgerðar 10 myndir í syrpunni Landlit og myndröðina Fuglar og hafa nú gefið safninu öll verkin sem voru í hennar eigu þegar hún lést. Síðan Valgerður Bergsdóttir, dóttir Valgerðar Briem, kom til starfa í Gerðarsafni vann hún við að ljósmynda og tölvuskrá verk móður sinnar. Í safninu eru um 1640 teikningar af ýmsum toga sem unnar eru með margvíslegum teikniaðferðum. 

Um listsköpun og verk Valgerðar Briem ritaði Guðbjörg Kristjánsdóttir forstöðumaður í sýningarskrána Þverskurður eftirfarandi:

Valgerður Briem (1914-2002) var annálaður myndlistarkennari. Skissubækur og óteljandi teikningar sem hún vann í tengslum við myndlistarkennslu sína bera þess merki að hún hefur verið síhugsandi um hvernig miðla mætti munsturgerð og hönnun til nemenda. Hvert einstakt munstur er þróað með þrotlausri vinnu í ótal skissum uns lokaútgáfa fæst og hugmyndir sem kviknuðu í vinnuferli skráðar. Þannig urðu til heilu sjónabækurnar. Ein hefur að geyma háþróaðar og frumlegar leturgerðir, sem sumar hverjar eru sprottnar úr íslenskri hefð, aðrar innblásnar af list samtímans. Valgerður vann einnig ótal skissur með vefnaði í huga og sótti efnivið í gamla, íslenska muni á Þjóðminjasafni Íslands. Hið mikla teiknisafn Valgerðar er fjársjóður fegurðar. Slík var teiknisnilli hennar og hugmyndaauðgi.