+Safneignin

+Safneignin er rými á neðri hæð safnsins tileinkað rannsóknum á safneign Gerðarsafns þar sem gestum er gefinn kostur á að kynnast innra starfi safnsins. Leitað er aftur í grunninn og rýnt í safneignina með þeim hætti að listaverkageymslan teygir sig fram í sýningarrýmið. Hverju sinni eru dregin fram verk úr safneigninni til sýningar um leið og unnið er fyrir opnum tjöldum að skráningu verkanna, ástandsskoðun, rannsóknum og fræðslu.

Plúsinn stendur bæði fyrir viðbót og vísar í það sem koma skal. +Safneignin minnir á vægi safneignar í starfsemi safns og þann möguleika að tvinna saman rannsóknir og miðlun safnkosts. +Safneignin er langtímaverkefni þar sem markmiðið er að skapa vettvang fyrir innlit í þennan fjársjóð sem svalar forvitni ólíkra gesta Gerðarsafns.

Átaksverkefnið „Skráð fyrir opnum dyrum“ er unnið í +Safneigninni þar sem unnið er fyrir opnum tjöldum að skáningu verkanna, ástandsskoðun, rannsóknum og fræðslu. Verkefnið er því veigamikill liður í að opna starf safnsins fyrir gestum og gefa innsýn í rannsóknir og umönnun listaverka. „Skráð fyrir opnum dyrum“ er styrkt af Safnasjóði.