CYCLE

cycle_slavsaandtat.png

25.10.2018 - 06.01.2019

Cycle-hátíðin 2018 á sér stað á breiðum vettvangi, á Íslandi sem og erlendis. Þema hátíðarinnar, Þjóð meðal þjóða, beinir sjónum að áleitnum spurningum sem varða frelsisbaráttu og þjóðernishugmyndir í samhengi við 100 ára fullveldisafmæli Íslands. Hver er staða Íslands í samhengi við nýlendusögu heimsins? Er til ættjarðarást án mikilmennsku? Getum við náð jafnvægi milli umburðarlyndis og valds, eða verðum við alltaf að útiloka aðra til að standa vörð um eigin hóp? Hvað merkir hugtakið þjóð ef enginn er útilokaður? Þjóð meðal þjóða? Þjóðahaf? 

Út frá þessum hugleiðingum opnar sýningin Einungis allir umræðu um það hverjir fá að "tilheyra" í vestrænu samfélagi. Í verkum sýningarinnar veltir listafólkið fyrir sér sjálfsmyndum þjóða, tungumáli, fólksflutningum, frelsi og uppflosnun í nútíma og fortíð. Sýningin þenur jafnframt út hefðbundin landamæri milli nútímalistar, tónlistar, popplistar og ljóðlistar með því að stilla samstundis fram verkum myndlistarmanna, hönnuða, tónlistarmanna og ljóðskálda. Afraksturinn er fjölradda sýning mismunandi hrynjandi og tungumála sem teygir sig út fyrir veggi stofnunarinnar, tíma og rými. Á hátíðinni á síðasta ári, auk millikafla hennar í Berlín fyrr á þessu ári, hafa þegar komið fram áhrifamiklar hugvekjur um umburðarlyndi meðal þjóða. Áhrif fyrri viðburða bergmála innra með okkur og sýningin í Gerðarsafni dregur form sitt af endurómi þeirra skyntengsla, tilfinninga og nándar. 

Norðurreið Skagfirðinga – fyrstu skipulögðu mótmæli Íslendinga gegn nýlendustefnu árið 1849 – voru innblásin af byltingu í Dönsku Vestur-Indíum árið áður. Afleiðingar þessara mótmæla eru meðal annars þær að nú, árið 2018, er hundrað ára afmæli fullveldis Íslands og sjálfstæðis frá Danmörku formlega fagnað. Uppbygging hverrar sjálfsmyndar byggist á andlagi hennar. Allar miðjur eru háðar jaðrinum sér til skilgreiningar og rask á þeim mörkum ógnar jafnvægi sjálfsmyndarinnar. Varðstaða um slíkt jafnvægi getur ennfremur skilyrt og takmarkað þróun samfélaga, stjórnmála og efnahagstengsla og leitt til þess að ótti og hræðsla verði að stjórntækjum í þeirri vörn. Með orðum Halldórs Laxness: „Að trúa er að sjá … og fólk sér það sem það trúir.“ Ísland er vissulega miðja eigin sjálfsmyndar en hefur á sama tíma gegnt hlutverki jaðarstaðar; sem táknmynd framandleikans gagnvart Evrópu - sem bórealískur sögustaður með náttúrulegan sprengikraft og „upprunalegt tungumál“. 

Þessi tenging Íslands við náttúrukrafta hefur leitt til þess að Íslendingar hafa verið álitnir upprunalegir, frumlegir, skapandi og óspilltir eða jafnvel ódannaðir, óheflaðir og grófir. Viðbrögð við þessu sjónarhorni hins utanaðkomandi á Íslandi hafa sveiflast frá algerri höfnun yfir í innlimun og jafnvel upphafningu slíkra ímynda á innlendum vettvangi. Þessi ímynd hefur verið blóðmjólkuð af ferðaþjónustunni og hinum skapandi greinum og það er ljóst að þessi duldu nýlendutengsl halda áfram að móta þau sem „tilheyra“ og þau sem eru jaðarsett af íslenskri þjóðarsjálfsmynd og menningu - jafnvel í upplýstu og hnattrænu samfélagi nútímans. 

Sýningin tekst á við þetta margslungna viðfangsefni með aðferðum tungumáls og raddar. Í gegnum táknfræðilegar umbreytingar skoðar sýningin hvernig tungumál getur rúmað margbreytilegri orðræðu. Til dæmis geta spurningar úr dæmigerðum vegabréfsáritunar-umsóknum virst fáránlegar, jafnvel gamansamar, ef þær eru teknar úr samhengi og skrifaðar á skilti eða hengdar upp eins og auglýsingar í almannarými. Um leið afhjúpa þær þó þungann sem liggur að baki og lykilhlutverk tungumálsins í því skrifræði sem fæst við að aðgreina og flokka manneskjur. 

Sýningin dregur fram ágengar skynupplifanir á taktföstum hljóðum sem líkaminn framkallar munninum - m.a. til höfuðs þeirri hugmynd að málvísindi séu óspennandi eða deyfðarlegt viðfangsefni. Tungumálið er í raun grundvöllur mannlegra sambanda og trausts og hið talaða mál byggir á svo miklu meiru en því að framkalla hljóð og apa eftir þeim. Fuglar sem geta líkt eftir mannlegu tungutaki tala þrátt fyrir það ekki tungumál okkar. Það að líkja eftir er ekki það sama og að endurtaka, skilja. Sýningin teflir saman andstæðum og ósamrýmanleika - popp-menningu og alþjóðastjórnmálum, menningarstuldi og upprunaleika, frumspeki og gamansemi, kunnuglegum framandi mat og þjóðsöngi hins landamæralausa ríkis. Þannig sneiða verkin hjá endurtekningu hins margþvælda en leitast við að setja fram nýjar yrðingar í þeirri von að þar glitti í mállýsku hins sammannlega.

Jonatan Habib Engqvist, sýningarstjóri

Listamenn í Gerðarsafni: 

Anna Júlía Friðbjörnsdóttir | Anna Rún Tryggvadóttir | Athena Farrokzhad | Bryndís Björnsdóttir | Childish Gambino | Erla S. Haraldsdóttir | Hulda Rós Guðnadóttir | Joseph Beuys | Julius von Bismarck + Julian Charrière | Lap-See Lam + Wingyee Wu | Libia Castro + Ólafur Ólafsson | Magnus Sigurdarson | Melanie Ubaldo | Meriç Algün | Pinar Öğrenci | Sara Kramer | Sarah Rosengarten & Hrefna Hörn Leifsdóttir | Slavs and Tatars | Steinunn Gunnlaugsdóttir | Unnar Örn J. Auðarsson | Þráinn Hjálmarsson + Brynjar Sigurðarson + Veronika Sedlmair

 

 

Gjörningar eftir:

Adam Christensen

Bendik Giske

Bryndís Björnsdóttir

Þráinn Hjálmarsson, Brynjar Sigurðarson and Veronika Sedlmair

María Dalberg


Verk utan safns:

Anna Rún Tryggvadóttir – Þingvellir

Björk Viggósdóttir - Bókasafn Kópavogs

Jeannette Castioni + Þuríður Jónsdóttir – Midpunkt, Hamraborg

Julie Edel Hardenberg - Bæjarskrifstofur Kópavogs og Sundlaugin í Kópavogi

Libia Castro + Ólafur Ólafsson – Salurinn 
Magnús Sigurdarson - Sundlaugin í Kópavogi

Meric Algün - Sundlaugin í Kópavogi og önnur almenningsrými 

Steinunn Gunnlaugsdóttir – Reykjavíkurtjörn

Unnar Örn J. Auðarsson – almenningsrými 

Heimasíða Cycle

Mynd: Slavs and Tatars

Mother Tongues and Father Throats, 2013

Kraupa-Tuskany Zeidler, Berlin