Skráð fyrir opnum dyrum

17. júlí 2018

Í sumar er unnið að átaksverkefni í skráningu á safneign Gerðarsafns undir yfirskriftinni „Skráð fyrir opnum dyrum“. Skráningarverkefnið er unnið í rýminu +Safneignin á neðri hæð safnsins og er verkefnið stutt af Safnasjóði.

Átaksverkefnið felst í að samræma skráningu á verkum í safneign með það að marki að auðvelda eftirlit verka og styðja við frekari rannsóknir á safneigninni. Nú þegar hafa öll verk Gerðar Helgadóttur (1928-1975) verið skráð og gerð opin almenningi á ytri vef skráningarkerfisins Sarps. Markmið verkefnisins í sumar er að bæta skráningu verkanna með því að flytja ítarupplýsingar af eldra spjaldskrárkerfi og með ljósmyndun, úttekt og ástandsskoðun verka.  

 

+Safneignin er rými fyrir rannsóknir þar sem gestum er gefinn kostur á að líta á bak við tjöldin og kynnast því sem að öllu jöfnu tilheyrir innra starfi safns. Leitað er aftur í grunninn og rýnt í safneignina með þeim hætti að listaverkageymslan teygir sig fram í sýningarrýmið. Hverju sinni eru dregin fram verk úr safneigninni til sýningar um leið og unnið er fyrir opnum tjöldum að skráningu verkanna, ástandsskoðun, rannsóknum og fræðslu. Plúsinn stendur bæði fyrir viðbót og vísar í það sem koma skal. +Safneignin minnir á vægi safneignar í starfsemi safns og þann möguleika að tvinna saman rannsóknir og miðlun safnkosts.