Listræn stefna

Hlutverk

Gerðarsafn er framsækið nútíma- og samtímalistasafn þar sem lögð er áhersla á að efla áhuga, þekkingu og skilning á myndlist með sýningum, fræðslu og annarri miðlun. Safnið stendur fyrir öflugri og metnaðarfullri sýningardagskrá sem ætlað er að endurspegla strauma og stefnur samtímans samhliða sýningum á verkum úr safneign. Metnaður, listrænt gildi, aðgengileg og upplýsandi fræðsla og þjónusta er höfð í fyrirrúmi í tengslum við alla starfsemi safnsins.


Gerðarsafn hefur það að meginhlutverki að varðveita listaverkaeign Kópavogsbæjar, safna, miðla, og varðveita safneignina. Gerðarsafn starfar samkvæmt stofnskrá og í samræmi við menningarstefnu Kópavogsbæjar, safnalög og siðareglur Alþjóðaráðs safna (ICOM).

Leiðarljós

Gerðarsafn hefur það að leiðarljósi að vera í fararbroddi listasafna á Íslandi. Starfsemi safnsins endurspeglar stöðu þess sem eina listasafn landsins stofnað til heiðurs listakonu, Gerði Helgadóttur (1928–1975). Sköpunarkraftur og tilraunastarfsemi Gerðar er leiðarstefið í sýningargerð, viðburðum og fræðslustarfi. Verk hennar og arfleifð er virkjuð í samtali við samtímalist og hugðarefni samtímans.


Gerðarsafn leitast við að tengjast gestum sínum á nýjan hátt; dýpka samtal, áhuga og skilning á myndlist og menningu. Gerðarsafn er staður til að doka við og njóta samverustunda, vettvangur til íhugunar og uppfyllingar, og farvegur fyrir áskoranir og ögrandi hugmyndir.
Gerðarsafn trúir á mátt myndlistar og menningar og veitir aukin lífsgæði í opnu og frjálsu samfélagi.

Markmið

Gerðarsafn leggur upp úr því að vera leiðandi safn og vettvangur samtímalistar á Íslandi. Með fjölbreyttu sýningarhaldi er ekki einungis ætlunin að endurspegla og veita nýja sýn á mikilvæga þætti listasögunnar, heldur einnig að varpa ljósi á lifandi tungumál samtímalistarinnar.
Markmið safnsins er að blása krafti og forvitni í safnfræðslu með skapandi og persónulegri nálgun á viðfangsefnið hverju sinni. Að efla samband við nærumhverfið með fjölbreyttum viðburðum og fræðslu í tengslum við sýningar safnsins. Jákvætt og opið viðmót gagnvart öllum gestum er eitt af grunngildum safnsins og gestir eru leiddir til samtals á eigin forsendum.


Frumkraftur og frumkvöðlastarf endurspeglast í starfsemi Gerðarsafns og er sérstaða safnsins leiðandi í allri ímynd og kynningu.
Gerðarsafn starfar í alþjóðlegu samhengi myndlistarinnar og hefur það að markmiði að efla tengsl og samvinnu við listamenn, sýningarstjóra og samstarfsaðila á alþjóðavísu.