Ráðgjafanefnd

Gerðarsafn leggur upp úr því að vera leiðandi safn og vettvangur samtímalistar á Íslandi. Með fjölbreyttu sýningarhaldi er ekki einungis ætlunin að endurspegla og veita nýja sýn á mikilvæga þætti listasögunnar, heldur einnig að varpa ljósi á lifandi tungumál samtímalistarinnar. 

Listræn starfsemi Gerðarsafns er mótuð af forstöðumanni Gerðarsafns í samstarfi við ráðgjafarnefnd safnsins. Hlutverk ráðgjafanefndar er að veita faglega ráðgjöf um sýningar- og söfnunarstefnu Gerðarsafns. Björg Stefánsdóttir, Ólöf Nordal og Jón B.K. Ransú skipa ráðgafanefnd safnsins 1. október 2019 til 1. október 2021.

Hlutverk og skipan ráðgjafanefndar Gerðarsafns

Ráðgjafanefnd Gerðarsafns skal skipuð þremur mönnum auk forstöðumanns Gerðarsafns, sem veitir nefndinni forstöðu. Forstöðumaður Gerðarsafns velur nefndarmenn út frá faglegum forsendum þar sem hæfni, menntun, starfsreynsla, kynjavægi, aldur og annað, sem kann að skipta máli við valið, er haft að leiðarljósi.

Meðal hlutaverka ráðgjafanefndarinnar er að fara yfir sýningartillögur og vera forstöðumanni til ráðgjafar um sýningar- og söfnunarstefnu og innkaup á aðföngum. Starfsemi nefndarinnar er á ábyrgð forstöðumanns Gerðarsafns og er nefndin bundin trúnaði í störfum sínum fyrir safnið.

Forstöðumaður Gerðarsafns leggur fram til samþykktar fyrir Lista- og menningarráð Kópavogsbæjar starfsreglur og starfsskyldur nefndarinnar þar sem einnig er tilgreint hvernig vinnuskyldu nefndarmanna er háttað utan funda. Forstöðumaður Gerðarsafns boðar til nefndarfunda samkvæmt skipulagðri dagskrá með minnst tveggja daga fyrirvara. Forstöðumaður menningarmála Kópavogs er boðaður til nefndarfunda en er óbundinn af því að sitja alla fundi nefndarinnar.

Gert er ráð fyrir að nefndin komi saman fjórum sinnum á ári en að hámarki fimm sinnum. Launakjör nefndarmanna eru ákvörðuð af Lista- og menningarráði og eru gjaldfærð á Gerðarsafn. Nefndarmönnum er greitt fyrir þá fundi sem þeir sitja. Forstöðumaður Gerðarsafns ritar fundargerðir sem lagðar eru fyrir Lista- og menningarráð. 

Skipan nefndarinnar er háð samþykki Lista- og menningarráðs. Starfstími nefndarinnar er til eins árs í senn með möguleika á framlengingu í eitt ár. Allar stórvægilegar tillögur nefndarinnar, eins og innkaup listaverka, skal bera undir Lista- og menningarráð til samþykktar áður en ákvörðun liggur fyrir.

 

 

 

ráðgjafanefnd.jpg

Ráðgjafanefnd Gerðarsafns

Björg Stefánsdóttir var framkvæmdastjóri Kynningarmiðstöðvar íslenskrar myndlistar frá  2014–2019 en þar áður hafði hún starfað hjá KÍM sem verkefnastjóri íslenska skálans á Feneyjatvíæringnum frá 2012. Björg hefur síðustu ár setið í fagráði KÍM, stjórn Samtaka skapandi greina, stjórn Rannsóknarmiðstöðvar skapandi greina, stjórn myndlistarhátiðarinnar Sequences real time art festival og fagráði Íslandsstofu fyrir skapandi greinar. Áður en Björg hóf störf hjá KÍM var hún frá árinu 2007 verkefnastjóri og kennari í hönnunardeild Listaháskóla Íslands. Björg er þessa stundina að vinna að meistararitgerð í safnafræði við HÍ.

 

Ólöf Nordal (f. 1961) býr og starfar í Reykjavík. Hún nam við Myndlista- og handíðaskóla Íslands, Gerrit Rietveld Academy in Amsterdam, lauk meistaraprófi frá Cranbrook Academy of Art í Michigan og síðar meistaraprófi frá höggmyndadeild Yale University í New Haven, Connecticut, í Bandaríkjunum. Árið 2005 hlaut hún hin virtu Richard Serra verðlaun. Ólöf Nordal er höfundur ýmissa útilistaverka og minnisvarða á opinberum vettvangi, má þar nefna Geirfuglinn í Skerjafirði, Vitid ér enn - eda hvat? í anddyri Alþingishússins, Bríetarbrekku (minnisvarða um Bríeti Bjarnhéðinsdóttur) við Þingholtsstræti, og umhverfislistarverkið Þúfu sem stendur úti á Granda við Reykjavíkurhöfn. Ólöf Nordal er dósent við Listaháskóla Íslands.

 

Jón B.K. Ransu er myndlistarmaður, menntaður í Hollandi á árunum 1990–1995. Árið 2006 tók hann þátt í International Studio and Curatorial Program í New York og hlaut þá styrk úr sjóði Krasner Pollock Foundation. Ransu starfar einnig sem fræðimaður og er höfundur tveggja bóka um samtímalist. Þá́ var hann meðhöfundur bókarinnar Gerður: Meistari málms og glers þar sem hann fjallar um tengsl Gerðar Helgadóttur við heimsmyndakenningar G.I. Gurdjieffs. Sem sýningarstjóri hefur Ransu m.a. unnið að sýningum fyrir Listasafn Íslands, Listasafn Reykjavíkur og Nýlistasafnið. Hann var einn af sýningarstjórum tvíæringsins Momentum 9: Alienation í Moss í Noregi árið 2017. Ransu er deildarstjóri við listmálaradeild Myndlistaskólans í Reykjavík.

 

Mynd efst: Sýningin Einungis allir á Listahátíðinni Cycle í Gerðarsafni 2018.