Árið 2009 færðu börn Valgerðar Briem myndlistarkonu, Páll Bergsson, Valgerður Bergsdóttur og Þorsteinn Bergsson, Gerðarsafni að gjöf teikningasafn móður sinnar.
Árið 2006 var haldin yfirlitssýning á verkum Valgerðar Briem í efri sölum Gerðarsafns. Í framhaldi af henni gáfu börn Valgerðar 10 myndir í syrpunni Landlit og myndröðina Fuglar og hafa nú gefið safninu öll verkin sem voru í hennar eigu þegar hún lést. Síðan Valgerður Bergsdóttir, dóttir Valgerðar Briem, kom til starfa í Gerðarsafni vann hún við að ljósmynda og tölvuskrá verk móður sinnar. Í safninu eru um 1640 teikningar af ýmsum toga sem unnar eru með margvíslegum teikniaðferðum.
Um listsköpun og verk Valgerðar Briem ritaði Guðbjörg Kristjánsdóttir forstöðumaður í sýningarskrána Þverskurður eftirfarandi:
Valgerður Briem (1914-2002) var annálaður myndlistarkennari. Skissubækur og óteljandi teikningar sem hún vann í tengslum við myndlistarkennslu sína bera þess merki að hún hefur verið síhugsandi um hvernig miðla mætti munsturgerð og hönnun til nemenda. Hvert einstakt munstur er þróað með þrotlausri vinnu í ótal skissum uns lokaútgáfa fæst og hugmyndir sem kviknuðu í vinnuferli skráðar. Þannig urðu til heilu sjónabækurnar. Ein hefur að geyma háþróaðar og frumlegar leturgerðir, sem sumar hverjar eru sprottnar úr íslenskri hefð, aðrar innblásnar af list samtímans. Valgerður vann einnig ótal skissur með vefnaði í huga og sótti efnivið í gamla, íslenska muni á Þjóðminjasafni Íslands. Hið mikla teiknisafn Valgerðar er fjársjóður fegurðar. Slík var teiknisnilli hennar og hugmyndaauðgi.