Open today

12:00-18:00

Gerður Helgadóttir

Gerður Helgadóttir (1928-1975)

Material Collection property

Gerður Helgadóttir (1928 – 1975) var fjölhæfur myndlistarmaður sem fékkst við skúlptúr, steint gler og mósaík. Hún stundaði nám við Handíðaskólann og hélt fyrst íslenskra myndlistarmanna til Flórens í nám árið 1949. Fljótlega þar á eftir hélt hún til Parísar, þar sem hún bjó og starfaði mestan hluta ævi sinnar. 

Með geómetrískum járnverkum á 6. áratugnum ávann Gerður sér sess sem frumkvöðull þrívíðrar abstraktlistar hér á landi. Síðan gerði hún myndir eingöngu úr hárfínum járnvírum sem mynda teikningu í rýminu. Mikil breyting varð á list Gerðar þegar hún fór að logsjóða úr bronsi. Form verkanna urðu óregluleg og lífræn og sjá má í þeim skyldleika við ljóðrænu abstraktlistina. Eftir ferð til Egyptalands árið 1966 má greina áhrif frá fornri egypskri list í verkum hennar. Um og upp úr 1970 taka við verk unnin úr gifsi, leir og jafnvel steinsteypu sem einkennast af einföldum hringformum og hreyfingu í ýmsum tilbrigðum. Mörg þessara verka eru hugsuð sem frummyndir að öðrum stærri. 

Þótt Gerður liti fyrst og fremst á sig sem myndhöggvara var hún einnig virtur glerlistamaður, bæði hér heima og erlendis. Steindir gluggar eftir hana prýða nokkrar kirkjur hér á landi. Þekktastir eru gluggar í Skálholtsdómkirkju og Kópavogskirkju. Einnig eru gluggar eftir Gerði í nokkrum kirkjum í Þýskalandi. Þekktasta verk Gerðar hér á landi er án efa stóra mósaíkmyndin frá árinu 1973 á Tollhúsinu í Hafnarstræti í Reykjavík.

Erfingjar Gerðar Helgadóttur (1928–1975) færðu Kópavogsbæ árið 1977 um 1400 listaverk úr dánarbúi listakonunnar en hún lést árið 1975 aðeins 47 ára að aldri. Skilyrði fyrir gjöfinni var að Kópavogsbær skyldi byggja listasafn, sem tengdist nafni Gerðar, geymdi og sýndi verk hennar og héldi að öðru leyti minningu hennar á lofti. 

GDPR Cookie Consent with Real Cookie Banner