Opið í dag

12:00-18:00

Ný aðföng 2020

31.12.2020

Árið 2020 voru keypt listaverk eftir þrjá samtímalistamenn auk bronsskúlptúrs eftir Gerði Helgadóttur frá 1972. Keypt voru verk eftir Örnu Óttarsdóttur, Bjarka Bragason og Claudiu Hausfeld, en verkin höfðu öll verið á sýningum á Gerðarsafni. 

Innkaupalisti (2018), textílverk eftir Örnu Óttarsdóttur. Verkið var sýnt á sýningunni Þegar allt kemur til alls í Gerðarsafni 04.07.- 23.08.2020. 

Hversdagslegur minnismiði – innkaupalisti – er meðhöndlaður af ástúð, listakonan sýnir honum athygli og kærleika með því að vefa hann í ull og bómull. Arna vinnur gjarnan með togstreituna milli þess sem er álitið dýrmætt og hins ómerkilega. Leikgleði, hversdagsleg fegurð og innileiki birtast í tímafreku handverki.

Ten Thousand and One Years (2016), ljósmyndaskúlptúr eftir Bjarka Bragason. Verkið var sýnt á sýningunni Afrit í Gerðarsafni 17.01. – 21.06.2020.

Verkið er ljósmynd sem nemur þó ekki staðar við myndflötinn heldur dansar á mörkum tvívíddar og þrívíddar sem ljósmyndaskúlptúr.

Bjarki Bragason birtir okkur afritun af náttúrulegum fyrirbrigðum þar sem mennskur og jarðfræðilegur tími mætast. Verkið Ten Thousand and One Years birtir bindingu koldíoxíðs í berg. Verkið sýnir tilraun til að beita náttúrulegum ferlum til þess að sporna gegn neikvæðum áhrifum mannaldar. Líkt og jósmynd festir ásýnd hluta á filmu hefur loftslagstegund sem veldur hnattrænni hlýnun verið bundin í áþreifanlegt efni, varðveitt sem steingervingur.

Abzug (2019), 8 mynda ljósmyndasería eftir Claudiu Hausfeld. Verkið var sýnt á sýningunni Afrit í Gerðarsafni 17.01. – 21.06.2020.

„Claudia Hausfeld birtir okkur verk sem eru í senn myndir og hlutir. Verkin afbyggja ljósmyndina og afhjúpa tilraunir miðilsins til að afrita veruleikann á flöt,“ skrifar Brynja Sveinsdóttir í sýningarskrá Afrits. Titill verksins gæti einmitt útlagst sem *afrit* eða *frádráttur* á íslensku en hér er afsteypa steins kannski jafn ófullkomið afrit af honum og tvívíð ljósmyndin.

Bronsskúlptúr (1972) eftir Gerði Helgadóttur. 

Verkið vann Gerður fyrir Listahátíð í Reykjavík í byrjun árs 1972 en hún var valin ásamt tveimur öðrum listamönnum til að gera tillögu að útilistaverki fyrir hátíðina. Listakonan hugsaði sér skúlptúrinn þá tuttugufalt stærri eða 10m háan á torgi í Reykjavík.

Ættingjar Helgu færðu síðan Kaupmannasamtökum Íslands skúlptúrinn að gjöf eftir hennar dag og um tíma stóð til að hann yrði stækkaður upp í 10m hátt útilistaverk, eins og Gerður sá upprunalega fyrir sér, sem stæði á mótum Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar í trjáboganum fyrir framan Hús verslunarinnar. 1996 var sóst eftir tilboði í verkið frá Pangolin verkstæðinu í Englandi en þótti of dýrt auk þess sem möguleg mislæg gatnamót á svæðinu flæktust fyrir og aldrei varð af uppstækkuninni.

Júlíus Þór Jónsson formaður Kaupmannasamtaka Íslands og Ólafur Steinar Björnsson varaformaður afhentu verkið Brynju Sveinsdóttur, forstöðumanns Gerðarsafns.

GDPR Cookie Consent with Real Cookie Banner