Opið í dag

12:00-18:00

Líf og fjör í vetrarfríi

17.10.2025

Það verður líf og fjör allt vetrarfríið í menningarhúsunum í Kópavogi þar sem boðið verður upp á veglega dagskrá fyrir börn á öllum aldri, en vetrarfríið fellur á dagana 27. og 28. október.

Bókasafn Kópavogs, Gerðarsafn og Náttúrufræðistofa bjóða í fjölbreyttar smiðjur báða dagana fyrir yngra og miðstig. Á Náttúrufræðistofu verður fræðsla um hina ófrýnilegu fiska kjaftagelgjur sem lýsa upp undirdjúpin með lífljómun og svo búa börnin til sínar eigin sjálflýsandi kjaftagelgjur úr origami. Á Gerðarsafni verða búin til gjósandi eldfjöll með ÞYKJÓ og á bókasafninu verður grímuföndur með fjöðrum og öllum heimsins litum sem svo verður hægt að mynda í myndakassa sem verður á svæðinu. Þetta og margt fleira í boði, en dagskrána í heild sinni má nálgast hér.

Fyrir unglingana verður sérstök dagskrá á bókasafninu, en þeim er boðið í mangateiknismiðju fyrir 12 ára og eldri auk þess að þau hafa tækifæri til að spjalla við rafíþróttaþjálfarann Patrek Gunnlaugsson. Foreldrar eru einnig velkomnir í spjallið og hvetjum við foreldra og börn til að mæta saman og spjalla við Patrek um tækifæri, hættur, vinsæla leiki og allt það sem brennur á fólki varðandi tölvuleikjanotkun. Nokkrar tölvur verða á svæðinu svo hægt verður að prófa einhverja leiki.

GDPR Cookie Consent with Real Cookie Banner