Opið í dag

12:00-18:00

Allir velkomnir

06.01.2019
15:00
Samtal um málefni sýningarinnar „Einungis allir“ fara fram í Gerðarsafni á síðasta sýningardegi, þann 6. janúar 2019, kl. 15. Meðal þátttakenda eru myndlistarmennirnir Libia Castro & Ólafur Ólafsson og Melanie Ubaldo, Snæbjörn Brynjarsson, rithöfundur og blaðamaður og Kristín Dagmar Jóhannesdóttir, safnstjóri Gerðarsafns. Sara S. Öldudóttir, sýningarstjóri og rannsakandi Cycle-listahátíðar, leiðir umræðurnar.  Sýningin Einungis allir opnar fyrir umræðu um það hverjir fá að „tilheyra“ í vestrænu samfélagi. Listamenn velta fyrir sér sjálfsmyndum þjóða, tungumáli, fólksflutningum, frelsi og uppflosnun í nútíma og fortíð. Sýningin þenur jafnframt út hefðbundin landamæri milli nútímalistar, tónlistar, popplistar og ljóðlistar með því að stilla samstundis fram verkum myndlistarmanna, hönnuða, tónlistarmanna og ljóðskálda. Afraksturinn er fjölradda sýning mismunandi hrynjandi og tungumála sem teygir sig út fyrir veggi stofnunarinnar, tíma og rými. Á hátíðinni á síðasta ári, auk millikafla hennar í Berlín fyrr á þessu ári, hafa þegar komið fram áhrifamiklar hugvekjur um umburðarlyndi meðal þjóða. Áhrif fyrri viðburða bergmála innra með okkur og sýningin í Gerðarsafni dregur form sitt af endurómi þeirra skyntengsla, tilfinninga og nándar.  Sýningin opnaði í tenglsum við Cycle-listahátíð 2018. Þema hátíðarinnar, Þjóð meðal þjóða, beinir sjónum að áleitnum spurningum sem varða frelsisbaráttu og þjóðernishugmyndir í samhengi við 100 ára fullveldisafmæli Íslands. Hver er staða Íslands í samhengi við nýlendusögu heimsins? Er til ættjarðarást án mikilmennsku? Getum við náð jafnvægi milli umburðarlyndis og valds, eða verðum við alltaf að útiloka aðra til að standa vörð um eigin hóp? Hvað merkir hugtakið þjóð ef enginn er útilokaður? Þjóð meðal þjóða? Þjóðahaf?
GDPR Cookie Consent with Real Cookie Banner