Opið í dag

12:00-18:00

Stúdíó Gerðar er opið

25.09.2023

Nú hefur fræðslurýmið, Stúdíó Gerðar, verið opnað aftur á neðri hæð Gerðarsafns! Bláu kubbarnir eru komnir aftur á sinn stað og einnig eru til sýnis valin verk úr safneigninni eftir Valgerði Briem, Gerði Helgadóttur og Valtýr Pétursson.

Stúdíó Gerðar er opið fræðslurými þar sem börnum, fjölskyldum og öðrum gestum gefst færi á að njóta samverustunda, fræðast og skapa saman.

Í Stúdíói Gerðar eru haldnar fjölbreyttar smiðjur í tengslum við sýningar safnsins og sem hluti af fjölskyldustundum Menningarhúsanna í Kópavogi. Þar er einnig tekið á móti skólahópum í tengslum við sýningar og boðið upp á styttri smiðjur sem miða að aldri og getu hvers hóps fyrir sig.

Fræðslurýmið Stúdíó Gerðar er skreytt með klippimyndum eftir 3-5 ára krakka úr leikskólanum Marbakka. Unnu þau klippimyndir í samtali við verk Gerðar Helgadóttur. Rýmið er hannað af Arnari Frey Guðmundssyni í samtali við grunnsýningu á verkum Gerðar Helgadóttur sem er við hlið fræðslurýmisins.

Frítt er fyrir börn á safnið og hafa margir foreldrar nýtt sér árskort Gerðarsafns til að koma reglulega í heimsókn og njóta þess skemmtilega fræðslustarfs sem boðið er uppá. Árskort á safnið kostar 2500 kr.

Verið öll velkomin í Gerðarsafn!

GDPR Cookie Consent with Real Cookie Banner