Opið í dag

12:00-18:00

Hljóðvefur um Hamskipti

MENNING Á MIÐVIKUDÖGUM
18.09.2024
12:15
–13:00

Tónlistarmennirnir Kristófer Rodriguez Svönuson og Matthías M. D. Hemstock skapa hljóðheim við sýninguna Hamskipti | Listsköpun Gerðar Helgadóttur sem nú stendur yfir í Gerðarsafni. Inn í hljóðheiminn renna slagverkstónar og rafhljóð, dulúðug og kraftmikil, dansandi og svífandi, leitandi og frjáls en innblásturinn er sóttur í myndlist Gerðar Helgadóttur. Gestum er frjálst að ganga um sýninguna á meðan viðburðurinn varir, aðgangur er ókeypis og öll hjartanlega velkomin á meðan húsrúm leyfir.

Gerður Helgadóttir var frumkvöðull innan höggmyndalistar og brautryðjandi í þrívíðri abstraktlist á Íslandi. Hún ögraði viðurkenndum hugmyndum um myndlist með tilraunakenndri nálgun sinni. Færni hennar var gífurleg, hún tileinkaði sér tækni fjölda flókinna aðferða og vann þvert á miðla, skapandi, dansandi, svífandi lipur, en á sama tíma svo kröftug. Í sýningunni Hamskipti er list Gerðar sett í sögulegt samhengi og verkin skoðuð út frá stefnum og straumum í samtíma hennar. Sjónum er einkum beint að örum breytingum í listsköpun Gerðar, þróun hennar úr hefðbundnu fígúratívu myndmáli yfir í hið óhlutbundna, hvernig hún fer úr steini í leir í járn og brons. Úr mjög formfastri myndbyggingu í svífandi léttleika og yfir í lífrænni og náttúrulegri form. Innsýn er veitt í hvernig leit Gerðar var bæði á andlega sviðinu og í listinni. List Gerðar gat verið skoðun á möguleikum efnisins, tenging inn á við, en pælingar hennar leita líka út fyrir hugarheim okkar, yfir í hið spítitíska og dulúðlega.

Menning á miðvikudögum er styrkt af lista- og menningarráði Kópavogsbæjar.

GDPR Cookie Consent with Real Cookie Banner