Verið öll hjartanlega velkomin á spjall með Michael Richardt og Kristni G. Harðarsyni um verk þeirra á sýningunni Störu í Gerðarsafni, sunnudaginn 23. mars kl. 14:00.
Michael Richardt (f. 1980) er sviðslistamaður sem sérhæfir sig í tímatengdum og langvarandi gjörningum. Heimildamyndin My Mother Is Pink um móður hans var tilnefnd í flokki listrænna heimildamynda á Sheffield Documentary Film Festival og vann Outstanding Excellence Award á Desert Edge Global Film Festival í Indlandi. Richardt hefur unnið fyrir Marina Abramović og kom fram á Louisiana Museum of Modern Art og Henie Onstad Art Centre. Hann hefur sýnt verk sín í Nikolaj Art Gallery, Vraa Exhibition, Listasafni Reykjanesbæjar, Norræna húsinu Nordic og Nitja miðstöð fyrir samtímalist í Noregi. Richardt fer með hlutverk Raphaels í sjónvarpsþáttunum Felix og Klara sem verða sýndir á RÚV í sumar.
Kristinn Guðbrandur Harðarson (f. 1955) hóf listnám sitt í Myndlistaskólanum í Reykjavík árið 1972 en útskrifaðist úr Myndlista- og handíðaskólanum 1977. Veturinn eftir dvaldi hann við framhaldsnám í Hollandi. Myndlist Kristins er fjölbreytt á allan hátt hvað varðar efni og aðferðir, viðfangsefni og form og hefur hann fengist við allt frá útsaumi til gerninga. Hann er mjög opinn gagnvart áhrifum úr umhverfi sínu almennt og frá öðrum listamönnum, listastefnum, auglýsingum, teiknimyndasögum, handverki og hannyrðum. Verkin sjálf spretta hins vegar mikið til upp úr skrásetningu og dagbókarefni í formi texta, ljósmynda og teikninga.
Kristinn á langan sýningarferil að baki, á Íslandi en einnig víða um Evrópu og eitthvað í Bandaríkjunum. Hann hefur einnig langan og fjölbreytilegan kennsluferil, svo sem í Listaháskólanum, Myndlistaskóla Kópavogs en lengst í Myndlistaskólanum Í Reykjavík þar sem hann hefur m.a. kennt áhugafólki málun. Kristinn var stofnfélagi Suðurgötu 7 samtakanna og Nýlistasafnsins og hefur þar að auki fengist nokkuð við sýningarstjórnun.
Aðgöngumiði á safnið gildir, frítt fyrir árskortshafa.