Verið velkomin á leiðsögn um Guðrúnu Bergsdóttur og Barböru sunnudaginn 4. maí kl. 14:00 í Gerðarsafni. Hildigunnur Birgisdóttir er sýningarstjóri á yfirlitssýningu á verkum Guðrúnar og Brynja Sveinsdóttir og Hallgerður Hallgrímsdóttir eru sýningarstjórar Barböru.
Guðrún Bergsdóttir:
Gerðarsafn heiðrar Guðrúnu Bergsdóttur (1970–2024) og listferil hennar með yfirlitssýningu í sýningarstjórn Hildigunnar Birgisdóttur. Samhliða sýningunni kemur út bókin Hugarheimar sem fjölskylda Guðrúnar kom fallega til leiðar í samstarfi við Hörpu Björnsdóttur með myndum af verkum og greinum um listsköpun hennar.
Guðrún skapaði á jaðrinum, starfaði í hliðarsenu íslenskrar myndlistar. En hún steig samt sem áður nokkur mikilvæg spor yfirstóra þröskulda inn í stóru söfnin og á aðalsviðin, mest að tilstuðlan hátíðarinnar List án landamæra. Guðrún sýndi margoft á hátíðinni og var valin heiðurslistamaður hennar árið 2011. En þó að Guðrún hafi verið staðsett á jaðrinum töluðu verk hennar inn í hjörtu ófárra myndlistarmanna og áhugafólks um myndlist sem fundu undur og innblástur í verkunum. Í starfi óhefts huga sem lagði ekki upp með að brjóta reglurnar heldur bjó til sínar eigin. Þannig setja 64 útsaumsverk mark sitt á íslenska listasögu þótt þau hafi orðið til í frelsi frá henni.
Guðrún saumaði út. Hún skissaði ekki myndina upp áður heldur saumaði einfaldlega beint út í strammann, hugur leiddi út í hönd. Hún saumaði meðal annars á ferðum sínum með strætó og í kaffipásum sínum í vinnunni sem skilur eftir sér sterka mynd í hugskoti. Af hinum ötula listamanni sem þarf ekki hina fullkomnu aðstöðu eða tíma, heldur finnur kannski einmitt hugarró í því að skapa verkin. Útsaumur er miðill þolinmæði, hinna smáu spora sem safnast saman. Áður vann Guðrún tússmyndir þar sem tússsporin eru ekki ósvipuð saumsporunum en í hennar meðförum fá eiginleikar tússlitarins að njóta sín, hvernig hann markar alltaf hverja stroku og er varhugaverður í festunni sem hann markar pappírinn með. Báðir þessir miðlar eru í senn hefðbundnir og á jaðrinum, sköpunartól sem Guðrún beitir meðólíkri snerpu, frá hraðvirkni til nosturs. Þau bera þó með sér sömu nákvæmni og natni þar sem form umbreytast í lífrænan munsturtakt. Verkin gætu kveikt löngun í fólki til að strjúka þeim varlega og syngja fyrir þau. En ekki snerta verkin. Leyfið þeim að snerta ykkur.
Barbara:
Barbara Árnason spratt upp úr einu myndlistarumhverfi og skaut rótum í öðru. Hún var fædd í Hampshire í Suður Englandi árið 1911 og ólst upp í samfélagi sem hafði mótast af hraðri nútímavæðingu með þéttbýlismyndun, tækniframförum og uppbyggingu iðnaðarborga. Þar sem hreyfingar á borð við Lista-og handverkshreyfinguna (e. Arts and Crafts Movement) spruttu upp sem andsvar við iðnvæðingu með áherslu á upphafningu handverks og endurmótun listar og hönnunar. Þar sem þungi iðnvædds samfélags mætti ríkulegri menningarsögu. Samfélagi sem, þrátt fyrir iðnað og þunga nútímans, bjó yfir sterkri listhefð þar sem skreytilist, myndlist og hönnun voru sjálfsagður hluti af hversdagslífi fólks.
Barbara stundaði listnám við Winchester School of Art og framhaldsnám við Royal College of Art í London þar sem hún sérhæfði sig í hönnun, málmristu og tréstungu. Í kjölfar námsins markaði hún sér stöðu innan grafíklistar í Englandi, hóf að myndskreyta bækur og kenndi samhliða því. Sumarið 1936 steig Barbara í fyrsta sinn fæti á íslenska grund. Hún hafði þá nýverið lokið við að myndskreytabók um fornsögur Íslands, sem vakti áhuga hennar á landi og sögu. Listakonan ferðaðist um landið á meðan á dvöl hennar stóð og festi hér óvænt rætur þegar hún kynntist listamanninum Magnúsi Á. Árnasyni.
Barbara Árnason var fjölhæfur listamaður sem hafði gríðarleg tök á tæknilegum útfærslum í þá ólíku miðla sem hún tók sér fyrir hendur. Hún þróaði nálgun sína og listræna könnun eftir eigin áherslum og skóp sér farveg innan myndlistar með tilraunum í miðla á borð viðgrafík, textíl, bókateikningar og viðarverk. Miðla sem stóðu á mörkum þess sem taldist klassísk myndlist en voru nátengdir hinu daglega lífi, bæði í almannarými og inni á heimilinu. Þessi nálgun hennar vísar samtímis í hina ensku hefð fyrir vel unnu handverki og skreytilist og hinn íslenska sjónlistaarf sem finna má á útskornum rúmbríkum og listvefnaði fyrri alda sem sýndu gjarnan senur úrþekktum sögum. Með þróun verka hennar flæddi nálgunin, aðferð¬irnar og fagurfræðin en kjarninn var þó í því daglega, nálæga og fíngerða þar sem hún tókst á við sífellt nýja miðla af forvitni og færni. Líkt og Barbara sjálf orðaði það í viðtali við tímaritið 65° árið 1969: „Það er algjörlega nauðsynlegt fyrir listamann að verafullkomlega frjáls til að kanna nýjar brautir.