Listakonan Arngunnur Ýr Gylfadóttir fæddist árið 1962 í Reykjavík. Hún lauk námi í flautuleik árið 1984 frá Tónlistarskólanum í Reykjavík. Samhliða tónlistarnáminu fór Arngunnur að sinna myndlistinni. Hún stundaði nám við Myndlistar- og handíðaskólann í Reykjavík. Eftir það fór Arngunnur til San Francisco og útskrifaðist með BA gráðu í myndlist frá San Francisco Art Institute. Arngunnur lauk einnig meistaragráðu í myndlist frá Mills háskólanum í Oakland.
Hún hefur sýnt verk sín á fjölmörgum einkasýningum og á samsýningum. Arngunnur hefur starfað sem leiðsögumaður til fjölda ára samhliða myndlistinni og telur listakonan að starfið hafi stýrt listsköpun sinni í þeim skilningi að hún notar landslagið til að túlka tilveru mannsins. Verkið Á enda tímans XXXI er málað með olíulitum á pappír og er það 57 x 76 cm að stærð.
„Myndlistin togaði meira í mig. Kannski var það vegna þess að í myndlistinni er maður algjörlega frjáls en í tónlistinni spilar maður yfirleitt verk eftir aðra. Tónlist skiptir mig þó miklu máli í sköpuninni og ég hlusta mikið á alls kyns tónlist við vinnuna.” Hér er vitnað í Arngunni í viðtali við Vísi frá árinu 2016.