Opið í dag

12:00-18:00

Valgerður Briem

Andlitsteikning

Efni Safneign

Valgerður skapaði ótal andlitsmynda á ferli sínum og eru þær flestar frá árunum 1960- 1970. Hún byggði gjarnarn myndir sínar í formi klasa í stað myndraða. Listakonan vann mikið með ákveðin þemu og einfaldan kjarna sem síðan varð að flóknu þróunarferli.

„Sama andlit er ekki einu sinni eins frá degi til dags, árs til árs. Hugsaðu þér muninn á andliti í sorg og gleði; innilokun annars vegar og geislandi gleði hinna félagslyndu, sem verða að gefa öðrum hlutdeild í gleði sinni” sagði Valgerður í Morgunblaðinu árið 1980 um andlitsmyndir sínar.

Valgerður (1914- 2002) var myndlistarkennari ásamt því að vera listakona. Hún nam myndlist í Svíþjóð á árunum 1945-1947. Valgerður kenndi við myndlista- og handíðaskólann og Austurbæjarskóla og notaðist við fjölbreyttar aðferðir í kennslunni. Ásamt því að kenna sinnti Valgerður list sinni að kappi og skapaði hún m.a. ótal teikningar og vatnslitamyndir. Verk Valgerðar Briem gefa til kynna að um var að ræða einstaklega hæfileika og hugmyndaríka listakonu. Verk hennar urðu aldrei mjög þekkt meðal almennings. Fyrrverandi nemendur Valgerðar vilja meina að mikill frumleiki og metnaður hafi einkennt kennsluna og skólastofuna hjá Valgerði Briem. Hún hvatti nemendur sína til ástríðufullrar tjáningar og lagði mikið upp úr tengslum við skynjun.

Í Gerðarsafni eru um 1640 margvíslegar teikningar eftir Valgerði Briem sem safninu hlotnaðist frá fjölskyldu Valgerðar. Þess má geta að hægt er að skoða nokkur verk eftir Valgerði Briem í fræðslurými safnsins. Einnig er hægt að versla eftirprentanir af heimilisteikningum Valgerðar og fleiri myndir í safnbúð Gerðarsafns.