Verkið er mótað úr leir og var sýnt á sýningu Guðrúnar Veru Hjartardóttur “Waiting for a masterpiece” á neðri hæð Gerðarsafns árið 2004.
Á sýningunni mátti sjá litlar fígúrur úr leir á víð og dreif þar sem framsetning verkanna var vel ígrunduð og margar hverjar lágu ofan á hvítum viðarplötum eða inn í glerboxum. Sumar verurnar á sýningunni voru í klæðum en margar þeirra voru berskjaldaðar í nekt sinni. Verurnar sem Guðrún hefur skapað mynda ákveðinn hugarheim sem vekur okkur til umhugsunar um mannlegt ástand. Þessar verur vekja áhuga áhorfendans og getur verið erfitt að greina á milli hvort að þær séu börn, fullorðin eða gamalmenni. Sjá þær eitthvað sem við sjáum ekki?
Myndlistarkonan Guðrún Vera Hjartardóttir er fædd árið 1966 í Reykjavík. Hún stundaði nám við Myndlista og handíðaskólann og svo síðar við AKI-Akademie voor beeldend Kunst, Enschede í Hollandi. Hún útskrifaðist svo með MA gráðu í listkennslu frá Listaháskóla Íslands árið 2011. Guðrún hefur tekið þátt í mörgum samsýningum og einkasýningum bæði hér á landi og erlendis.