Mikil hreyfing er í verkinu og gæti áhorfandinn jafnvel skynjað að biðukollurnar hreyfist. Verkið er 40 x 30 cm að stærð og er um að ræða grafík mynd þar sem gríðarlega nákvæm tréstunga listakonunnar fær að njóta sín. Í verkinu má sjá einstaklega fáguð vinnubrögð og greinilega vísun í náttúruna.
Á sunnudaginn síðastliðinn, 10. ágúst lauk sýningunni „Barbara” á Gerðarsafni. Á sýningunni var þetta verk m.a. til sýnis. Eftirprent af verkinu er hægt að versla í safnbúðinni.
Listakonan Barbara Árnason kom fyrst til Íslands árið 1936, en hún fæddist í Suður-Englandi. Barbara bjó í Reykjavík fyrstu árin eftir komuna til Íslands með eiginmanni sínum og listamanninum Magnúsi Á. Árnasyni, en þau fluttust síðan í Kópavoginn árið 1959. Árið 2011 var opnuð yfirlitssýning á verkum Barböru í Gerðarsafni og voru hinar nákvæmu tréstungur hennar þar meðal annars til sýnis. Tréstungan eða xylografían er unnin í endavið. Eitt af því sem gerir tréstungur vandasamt listform er að aðeins er hægt að teikna útlínur verksins í viðinn en annað þarf að móta jafnóðum með hnífi. Það er því lítið svigrúm fyrir mistök.
Barbara var mikill brautryðjandi í þrykklist hér á landi og má segja að hún hafi átt stóran þátt í að leggja grunn að íslenskri svartlist. Hún fór ávallt sínar eigin leiðir og aðhylltist ekki ákveðna listastefnu. Á sumrin fór Barbara í ferðalög um landið í leit að innblæstri fyrir myndefni.