Í þessu verki má sjá konu og barn skreyta jólatré. Sveigðar línur, falleg litapalletta og persónuleg nálgun einkennir þetta jólakort. Það má skynja mikla hlýju í þessu verki Barböru.
Eftir listakonuna Barböru Árnason (1911-75) liggja ótal fjölbreytt verk, bókaskreytingar, svartlist, gólfábreiður, veggskreytingar, myndklæði og teikningar. Hún var af enskum uppruna og fædd í Petersfield, Suður Englandi. Þegar abstraktlistin var að spretta fram í íslensku menningarlífi með öllum þeim deilum sem henni fylgdu snerti það Barböru lítið sem ekkert. Hún kaus það að fara eigin leiðir í listsköpun sinni og var ávallt að prufa sig áfram með nýja miðlun í myndlistinni.
Stíll hennar var afar frumlegur og þroskaðist með árunum og vakti hann mikla eftirtekt. Það má segja að þær myndir sem urðu vinsælastar meðal almennings voru barnamyndir hennar og einkennast þær af mikilli næmni og tilfinningum. Barbara var mikill brautryðjandi í þrykklist hér á landi og má segja að hún hafi átt stóran þátt í að leggja grunn að íslenskri svartlist. Á sumrin fór Barbara í ferðalög um landið í leit að innblæstri fyrir myndefni. Barbara var Kópavogsbúi og er óhætt er að segja að það er Gerðarsafni mikils virði að eiga jafn stóran hluta af verkum Barböru og raun ber vitni. Bragi Ásgeirsson skrifaði eftirfarandi um Barböru í Morgunblaðinu árið 1976: „Yfirburðir hennar eru hinar mannlegu æðar sem streyma frá myndum hennar, hlýtt og gróið hjarta og það er einmitt það sem gefur allri mikilli list gildi. Myndir hennar eru bornar uppi af mjög sérstæðri og áhugaverðri tækni, sem mætti verða hinum yngri og framsæknu félögum hennar nokkur lærdómur.”