Í Gerðarsafni eru um 1640 margvíslegar teikningar eftir Valgerði Briem sem safninu hlotnaðist frá fjölskyldu Valgerðar. Valgerður skapaði ótal andlitsmynda og byggði hún gjarnarn myndir sínar í formi klasa í stað myndraða. Hún vann mikið með ákveðin þemu og einfaldan kjarna sem verður síðan að flóknu þróunarferli. Verkið Máría er teikning á pappír og er það 21 x 15 cm að stærð.
Teikningar og skissur Valgerðar Briem (1914-2002) gefa til kynna að um var að ræða einstaklega hæfileika og hugmyndaríka listakonu. Hún nam myndlist í Svíþjóð á árunum 1945-1947. Valgerður starfaði lengi sem myndlistarkennari og spruttu margar teikningar og skissur út frá því. Hún notaðist við fjölbreyttar aðferðir í kennslunni og vildi listamaðurinn Erró meina að Valgerður Briem hafi verið áhrifamesti kennari hans og sagði hann eftirfarandi „hún hafði ótrúlegt lag á að vekja fólk til umhugsunar um umhverfi sitt og sjálft sig sem er einkar mikilvægt fyrir myndlistarfólk. Hún veitti fólki líka gott veganesti með því að hvetja það áfram en hún hvatti nemendur sína til að vinna að alvöru.“