Tryggvi Ólafsson (1940-2019) var einn af okkar ástsælustu myndlistarmönnum og var hann mjög afkastamikill. Myndlistarstíll Tryggva er afar auðþekkjanlegur og einkennandi. Tryggvi vann með olíuliti, vatnsliti, akrýl, lakk og fleira á ferlinum. Hann sýndi á sýningum víðsvegar um heim, flestar í Danmörku og svo einnig hérlendis. Hann lærði í Myndlistar- og handíðaskólanum og svo seinna í listaakademíunni í Kaupmannahöfn og bjó hann lengst af þar. Frá ungum aldri hafði Tryggvi safnað úrklippum í möppu til innblásturs sem hann nýtti svo þegar hann byrjaði að vinna að popplist. Tryggvi notaðist mest við sterka og bjarta liti í verkum sínum. Mikill skáldskapur er í verkum Tryggva og telja margir að list hans hafi orðið djarfari með árunum. Tryggvi lenti í alvarlegu slysi árið 2007 og gat því ekki málað lengur. Hann flutti frá Kaupmannahöfn til Íslands enn vann ennþá að grafík. Á Neskaupsstað sem er heimabær Tryggva opnaði Tryggvasafn árið 2001 og telur safneign safnsins á vel á fjórða hundruð verka.
Gaman er að segja frá því að árið 2015 færði Tryggvi börnum og ungmennum 210 verk. Voru þetta 210 litógrafíur sem dreifðust á leik, grunnskóla og skólahljómsveitir. „Ein af þörfum mannsins er þörfin fyrir fegurð, hún er bara misjafnlega sterk hjá fólki. Ég held að fegurðarskynið komi bara frá því að barnið er á brjósti hjá móðurinni. Ég hef haft þessa myndaþörf, það eru alveg hreinar línur með það, hún fer aldrei. Þegar ég er á ferðalögum og geri ekki neitt – og líður ágætlega við að sjá myndir, verk eftir aðra menn – þá fer mig að lengja eftir því að gera eitthvað sjálfur“ sagði Tryggvi eitt sinn í viðtali.