Verkið Kona og Köttur er olíumálverk, málað í svokölluðum depilstíl eða punktastíl (e. pointillism), stíll síðimpressjónistanna, sem einkenndi mikið af verkum Magnúsar og þá sérstaklega verk hans frá Frakklandi. Hann fylgdi þó ekki depilstílnum til hins ítrasta á hefðbundinn hátt. Verkið er 47 x 65 cm að stærð og kom það inn í safneignina árið 1983.
Listferill Magnúsar Á. Árnasonar (1894-1980) hófst fyrir alvöru þegar hann fór til náms í Kaupmannahöfn árið 1912. Hann ætlaði sér að verða portrett málari í upphafi listferils síns, en byrjaði síðan að mála landslagsmyndir með vatnslitum þegar systurdóttir hans dó, en hún hafði verið hans helsta fyrirsæta. Magnús dvaldi í Bandaríkjunum í rúm 12 ár og stundaði meðal annars nám þar.
Magnúsi var margt til listanna lagt, hann var myndlistarmaður, tónskáld og rithöfundur. Magnús var mikill náttúruunnandi og málaði hann mikið af landslagsverkum.
Hann giftist listakonunni Barböru Moray Williams Árnason og hlotnaðist Gerðarsafni sá heiður að eignast mikið af verkum eftir þau hjónin.