Olíumálverk frá árinu 1996 eftir Baltasar Samper.
Listamaðurinn Baltasar Samper fæddist árið 1938 í Barcelona, Katalóníu. Hann lærði í Facultat de Belles Arts de l’ Universitat de Barcelona. Síðan lærði hann grafík við Institut del Llibre de Barcelona og seinna litógrafíu í Bandaríkjunum. Baltasar hélt síðan í heimsreisu til þess að kynna sér betur liststefnur og til þess að stunda rannsóknir.
Frá árinu 1963 hefur Baltasar verið búsettur á Íslandi. Hann hefur sýnt verk sín á fjölmörgum einkasýningum. Listamaðurinn hefur unnið mikið með viðfangsefni eins og norræna goðafræði, íslenska hestinn og andlitsmyndir. Þekkt verk eftir Baltasar Samper eru t.d. freskur í Flateyjarkirkju og Víðistaðakirkju. Baltasar var valinn heiðurslistamaður Kópavogs árið 2007.
Tónskáldið og dægurlagahöfundurinn Sigfús Halldórsson fæddist árið 1920 í Reykjavík. Lög Sigfúsar hafa elst vel og þekkja flestir lög eins og Litla flugan og Vegir liggja til allra átta. Sigfús var fjölhæfur listamaður, ásamt tónlistinni var hann að mála og vann hann einnig við leiktjaldamálun á tímabili. Hann lést árið 1996, sama ár og Baltasar málar mynd af honum.