Eftir Valtý Pétursson (1919-1988) liggja um 2.400 verk, teikningar, olíumálverk, dúkristur, vatnslitaverk, mósaík og gvassverk. Hann var afar afkastamikill málari og einn af brautryðjendum abstrakt málverksins á Íslandi. Valtýr var mikill heimsborgari og stundaði nám meðal annars í Boston, Flórens og París. Hann var einn af stofnendum og þátttakendum hinna rótæku Septembersýninga og sýndi Valtýr strangflatarverk sín á Septembersýningunni árið 1951. Frá árinu 1952 tók Valtýr við starfi sem gagnrýnandi hjá Morgunblaðinu og sinnti hann því samviskusamlega og skrifaði hann um 900 greinar. Árið 1952 um haustið var einkasýning Valtýs opnuð í Listvinasalnum þar sem listamaðurinn sýndi eingöngu abstrakt verk. Það sem var áberandi í verkum Valtýs á þessum árum voru lóðrétt L-laga form sem lögðust ofan á hvert annað. Valtýr var óhræddur við fjölbreytni í litavali og notaði hann gjarnan andstæða liti og jarðliti á móti svörtum og hvítum.
Abstrakt geometrísk verk Valtýs eru tilraunakennd og geta þau gripið áhorfendann á áhrifaríkan hátt líkt og sjónhverfing. Á sýningunni Geómetríu sem var árið 2022 á Gerðarsafni voru nokkur af hinum mögnuðu gvassverkum Valtýs Péturssonar til sýnis. Verkið kom inn í safneign árið 2017 og voru það erfingjar Valtýs sem færðu safninu verkið ásamt fleiri verkum. Um er að ræða gvassmynd frá árunum 1950-59 á pappír sem er 33 x 41 cm að stærð.
Í fræðslurými Gerðarsafns er hægt að skoða og fræðast um nokkur verk eftir Valtý Pétursson. Safnbúð Gerðarsafns selur þrjú mismunandi eftirprent af verkum Valtýs.