Listmálarinn og listgagnrýnandinn Valtýr Pétursson fæddist 27. mars árið 1919 og lést 15. maí 1988. Hann var afar afkastamikill málari og einn af brautryðjendum abstrakt málverksins á Íslandi. Eftir hann liggja um 2.400 verk, teikningar, olíumálverk, dúkristur, vatnslitaverk, mósaík og gvassverk. Valtýr var mikill heimsborgari og stundaði nám meðal annars í Boston, Flórens og París. Hann var einn af stofnendum og þátttakendum hinna rótæku Septembersýninga og sýndi Valtýr strangflatarverk sín á Septembersýningunni árið 1951.
Árið 1952 um haustið var einkasýning Valtýs opnuð í Listvinasalnum þar sem listamaðurinn sýndi eingöngu abstrakt verk. Það sem var áberandi í verkum Valtýs á þessum árum voru lóðrétt L-laga form sem lögðust ofan á hvert annað. Valtýr var óhræddur við fjölbreytni í litavali og notaði hann gjarnan andstæða liti og jarðliti á móti svörtum og hvítum. Abstrakt geometrísk verk Valtýs eru tilraunakennd og geta þau gripið áhorfendann á áhrifaríkan hátt líkt og sjónhverfing. Á sýningunni Geómetríu sem var sýnd árið 2022 á Gerðarsafni voru nokkur af hinum mögnuðu gvassverkum Valtýs Péturssonar til sýnis.
Þetta verk kom inn í safneign árið 2017 og voru það erfingjar Valtýs sem færðu safninu verkið ásamt fleiri verkum. Um er að ræða gvassverk á pappír og er það 28,5 x 38,5 cm að stærð.
Verkið er til sýnis í fræðslurými Gerðarsafns ásamt fleiri verkum eftir Valtý. Í safnbúð Gerðarsafns eru þrjú mismunandi eftirprent af verkum Valtýs til sölu.