Nína Tryggvadóttir var afar hæfileikarík listakona og mikill heimsborgari. Hún dvaldi mestan hluta ævi sinnar í París en einnig í London og New York. Hún er þekktust fyrir abstrakt verk sín sem eru oftar en ekki með vísun í náttúruna. Verkið Jörð er olíuverk og er það 131x131cm að stærð. Jörð er abstrakt verk þar sem ljóðræn túlkun Nínu fær að njóta sín og jarðlitirnir spila fallega saman. Nína hélt sýningu á abstrakt verkum í Listvinasalnum árið 1952 en hún kallaði þau þó landslagsverk. Listfræðingurinn Björn Th. Björnsson sagði að í verkum Nínu væri „sterk og sannfærandi náttúrukennd.“
Þess má geta að hægt var að sjá verk eftir Nínu á sýningunni Geómetría, sem stóð yfir í Gerðarsafni í lok ársins 2022 en Nína átti stutta en kröftuga innkomu í hina geómetrísku abstraktlist á sjötta áratugnum.