Barbara Árnason var afar fjölhæf og snjöll listakona, hún myndskreytti bækur, gerði veggskreytingar, verk úr lopa, vann með tréstungu og gerði vatnslitaþrykkjur svo eitthvað sé nefnt.
Þessi teikning er 50 x 35 cm að stærð og kom inn í safneign Gerðarsafns árið 1983. Sonur Barböru, Vífill Magnússon lærði arkitektúr í Mexíkó á sínum tíma og fór Barbara að heimsækja hann þar. Í Mexíkó gerði hún þó nokkrar skemmtilegar teikningar af umhverfinu og fólkinu þar.
Barbara kom fyrst til Íslands árið 1936, en hún fæddist í Suður-Englandi. Barbara bjó í Reykjavík fyrstu árin eftir komuna til Íslands með eiginmanni sínum og listamanninum Magnúsi Á. Árnasyni, en þau fluttust síðan í Kópavoginn árið 1959. Árið 2011 var opnuð yfirlitssýning á verkum Barböru í Gerðarsafni og voru hinar nákvæmu tréstungur hennar þar meðal annars til sýnis. Barbara var mikill brautryðjandi í þrykklist hér á landi og má segja að hún hafi átt stóran þátt í að leggja grunn að íslenskri svartlist. Hún fór ávallt sínar eigin leiðir og aðhylltist ekki ákveðna listastefnu. Á sumrin fór Barbara í ferðalög um landið í leit að innblæstri fyrir myndefni. Óhætt er að segja að það er Gerðarsafni mikils virði að eiga jafn stóran hluta af verkum Barböru og raun ber vitni.