Open today

12:00-18:00

Bragi Ásgeirsson

Móska með sundum

Material Collection property
Size  137 x 122,5 cm

Bragi Ásgeirsson (1931-2016) stundaði listnám víða, á Íslandi, í Kaupmannahöfn, Osló, München, Róm og Flórens. Hann var einn af stærri nöfnum hér á landi og hefur listsköpun hans haldist á lofti eftir fráfall hans árið 2016. Bragi missti heyrnina ungur, aðeins níu ára gamall en hann náði fljótt góðum tökum á varalestri.

Ásamt því að vera myndlistarmaður var Bragi einnig listrýnir, myndlistarkennari og greinahöfundur. Hann var brautryðjandi í grafíkkennslu hér á landi. 17.júní árið 2001 fékk Bragi fálkaorðuna fyrir framlag sitt til íslenskrar menningar. Bragi var afar fjölhæfur listamaður, hann málaði mest abstrakt til þess að byrja með, fór svo yfir í grafíkina og prufaði síðar fleiri stíla. Listamenn eins og Modigliani, Picasso og Matisse höfðu sterk áhrif á listsköpun Braga.

Verk Braga voru til sýnis á hinum ýmsu einkasýningum, t.d. á Kjarvalsstöðum, Norræna húsinu og Listasafni Íslands. Bragi tók þátt í samsýningum um allan heim, m.a. Í Evrópu, Rússlandi, Kína, Bandaríkjunum og Japan.

Hann fór snemma að taka þátt í sýningum abstrakt hópsins á 6. áratug síðustu aldar og svo á 7. áratugnum fór hann að prufa sig áfram í popplist.

Í abstrakt málverkinu Móska með sundum brýtur hann myndina upp í þrjá hluta með hvítu línunum tveimur. Fallegir jarðlitir spila saman í verkinu og má skynja ákveðinn drunga yfir myndinni. Verkið er 137 x 122,5 cm að stærð.

Í sýningarskrá fyrir einkasýningu hans Heimur augans á Kjarvalsstöðum árið 1980, tileinkar Bragi föður sínum sýninguna. Þar skrifar Bragi: „Sýningu þessa tileinka ég föður mínum, Ásgeiri Ásgeirssyni frá Fróðá, sem kenndi mér að láta ekki undan á erfiðum tímum, að meta fegurð og tign landsins, að virða íslenzka tungu og gera mér ljóst að alltaf væri hægt að gera betur. Það skipti mestu máli að hugsa stórt í litlu landi.”

GDPR Cookie Consent with Real Cookie Banner