Ólafur Gíslason listfræðingur verður með leiðsögn um sýninguna Fora í Gerðarsafni laugardaginn 19. júní kl. 14:00. Öll eru hjartanlega velkomin.
„Myndlistarverk verður aldrei endursagt í orðum. Orðin hafa sinn efnislega grunn í hljóðstöfunum sem koma úr kverkum okkar og ná til eyrnanna, myndlistarverkið á sinn efnislega grunn í áþreifanlegu efni þess og endurkasti birtunnar er höfða til sjónskyns og snertiskyns. Hegel orðaði það þannig að listaverkið fæli í sér „skynjanlega birtingarmynd hugmyndarinnar“. Þar glímdi hann við þau samskipti „anda“ og „efnis“ sem evrópsk heimspekihefð hefur glímt við allt frá dögum Platons.” – úr texta Ólafs Gíslasonar í sýningarskrá Fora, Bucranium.
Verk Rósu eru könnun á geometríu og klassískri formgerð með vísunum í arkitektúr og rússneskan konstrúktivisma. Skúlptúrar hennar spila á mörkum þess klassíska og nútímalega jafnframt í fagurfræði og efnisnotkun. Verk í við, gifs, keramik og gler skapa samspil við umhverfi sitt hvort sem það er staðbundið verk í borgarlandslagi eða skúlptúrar sem hverfast um sýningarrými.
Rósa Gísladóttir (f. 1957) nam myndlist í Þýskalandi, Bretlandi og á Íslandi. Verk hennar hafa verið sýnd víða hérlendis og erlendis, þar á meðal í Scandinavia House í New York, Saatchi Gallery í London, Listasafni Reykjavíkur, Hafnarborg, Listasafni Árnesinga og Berg Contemporary. Hún var fyrsti handhafi Gerðarverðlaunanna 2020, en þau eru veitt árlega framúrskarandi myndlistarmanni sem vinnur með skúlptúr og rýmisverk.