Opið í dag

12:00-18:00

Aðventuhátíð Kópavogs

JÓL Í KÓPAVOGI
30.11.2024
15:00
–17:00

Aðventuhátíð í Kópavogi verður haldin með pompi og prakt, laugardaginn 30. nóvember. Ásdís Kristjánsdóttir bæjarstjóri tendrar ljósin á jólatré Kópavogsbæjar við menningarhúsin við hátíðlega athöfn. Jólasveinar bregða á leik, dansað verður í kringum jólatréð og fjöldi krakka í Kópavogi blása í lúðra og flytja jólalög.

Boðið verður upp á fjölbreyttar aðventusmiðjur frá klukkan 15. Pólsk brúðusmiðja, fóðurkönglagerð fyrir fugla, jólagjafasmiðjur, jólatónlist og lesið verður upp úr jóladagatali sem Eygló Jónsdóttir rithöfundur skrifaði upp úr hugmyndum barna í Kópavogi.

Systir jólasveinanna mætir með fullt af tröllafötum úr Grýluhelli og býður mannabörnum að klæða sig sem tröllabörn. Tröllastelpa kennir krökkum á öllum aldri að dansa við dillandi jólalög. Og að sjálfsögðu mæta jólasveinar á svæðið og leiða dans í kringum jólatréð ásamt vinkonu sinni Rófu.

Nemendur úr Tónlistarskóla Kópavogs flytja jólatónlist á aðventutónleikum á bókasafninu. Í forsal Salarins mun bæjarlistamaður Kópavogsbæjar, Kristofer Rodriguez Svönuson, trommu- og slagverksleikari bjóða upp á fönkskotinn jólajazz ásamt Daníel Helgasyni gítarleikara og Hannesi Helgasyni hljómborðsleikara. Kvennakór Kópavogs flytur hugljúfa vetrartóna klukkan 16 undir stjórn Margrétar Eirar.

Á útisvæði mun Skólahljómsveit Kópavogsbæjar flytja fjöruga jólalagasyrpu undir stjórn Össurar Geirssonar. Kórar úr Hörðuvallaskóla og Smáraskóla flytja jólalög ásamt Ástvaldi Traustasyni á harmonikku. Stjórnendur kóranna eru þær Ása Valgerður Sigurðardóttir og Ásta Magnúsdóttir.

Verið öll hjartanlega velkomin.

Dagskrá:

 Bókasafn Kópavogs
15:00-16:30 Skreytum jólatré Gloríu.
15:00-16:30 Jóladýr og jólaverur – föndur.
15:00-16:30 Jólagjafasmiðja 11+ – þrívíddarpennar og perluarmbönd.
15:00 & 15:30 Jólasögustund með Eygló Jónsdóttur.
16:00 Aðventutónleikar með nemendum í Tónlistarskóla Kópavogs spila jólalög.

Jólaratleikur og innpökkunarstöð á opnunartíma safnsins.

  Gerðarsafn
14:00-16:30 Pólsk brúðusmiðja með Styrmi Erni Guðmundssyni og Agötu Mickiewicz
15:00-16:30 Dj. Sunna Ben þeytir jólaskífum á Krónikunni.

Sýningarnar Gerður grunnsýning, Óstöðugt land og Parabóla eru opnar frá 12:00 – 18:00.

 Náttúrufræðistofa
15:00-16:30 Fóðurkönglar fyrir fugla. Fræðsla og föndur með líffræðingnum Hlyni Steinssyni.

Grunnsýning Náttúrufræðistofu verður opin frá 11:00 – 17:00.

 Salurinn
15:00
Fönkskotinn jólajazz með bæjarlistamanninum Kristófer Rodriguez Svönuson, slagverksleikara, Daníel Helgasyni, gítarleikara og Hannesi Helgasyni, hljómborðsleikara.
16:00
Vetrartónar með Kvennakór Kópavogs undir stjórn Margrétar Eir.

 Menningarmiðjan – útisvæði menningarhúsanna

15:00 – 16:30 Tröllamátun. Systir jólasveinanna mætir með fullt af tröllafötum úr Grýluhelli og býður mannabörnum að klæða sig sem tröllabörn.

15:00 – 16:30 Jóladans. Tröllastelpa kennir krökkum á öllum aldri að dansa við dillandi jólalög.

16:45 Jólalagasveifla með Skólahljómsveit Kópavogsbæjar undir stjórn Össurar Geirssonar.

17:00 Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri tendrar jólaljósin á jólatré Kópavogsbæjar. Kynnar eru undraverur úr Jólalundi. Kórar úr Smáraskóla og Hörðuvallaskóla syngja jólalög ásamt Ástvaldi Traustasyni á harmonikku. Stjórnendur kóranna eru Ásta Magnúsdóttir og Ása Valgerður Sigurðardóttir. Jólasveinar mæta og slá upp dansiballi í kringum jólatréð.

Við hlökkum til að sjá ykkur í hátíðarskapi.

GDPR Cookie Consent with Real Cookie Banner