Opið í dag

12:00-18:00

Leiðsögn listamanns og sýningarstjóra | Hjartadrottning

14.04.2024
13:00
–14:00

Verið velkomin á leiðsögn um sýninguna Hjartadrottning í fylgd með Sóleyju Ragnarsdóttur og Heiðari Kára Rannverssyni, sunnudaginn 14. apríl.

Á sýningunni Hjartadrottning birtist áhorfendum heillandi hugar- og efnisheimur myndlistarkonunnar Sóleyjar Ragnarsdóttur. Ofurskrautleg málverk og skúlptúrar af ýmsum stærðum og gerðum, fagurlega málaðir veggfletir og sérhannað veggfóður auk sýningarborða með einstöku servíettusafni skapa hér eina heild svo úr verður malerísk innsetning.

Þetta er fyrsta einkasýning Sóleyjar Ragnarsdóttur á Íslandi. Hér gefst áhorfendum því einstækt tækifæri að sjá úrval af verkum þessarar upprennandi listakonu, sem eru ólík því sem er efst á baugi í íslenskri samtímalist. Sýningarstjóri er Heiðar Kári Rannversson.

Athugið að leiðsögnin fer fram á ensku.

Sóley Ragnarsdóttir

Sóley Ragnarsdóttir (f. 1991) er dönsk-íslensk myndlistarkona búsett í Stenbjerg, Thy í Danmörku. Hún lauk meistaraprófi frá Städelschule í Frankfurt, Þýskalandi árið 2019 undir handleiðslu Amy Sillman, Monika Baer og Nikolas Gambaroff. Á síðustu árum hefur Sóley vakið verðskuldaða athygli á danska og alþjóðlega myndlistarsviðinu og tekið þátt í fjölmörgum samsýningum. Þá hefur hún haldið nokkrar einkasýningar, m.a. Dot, dot, dot (2021) í Gallery Jean-Claude Maier, Frankfurt, Organizing Principles (2021) á O–Overgaden og Cherrystone (2022) í Formation Gallery, Kaupmannahöfn. Árið 2023 sýndi hún verkið More Love Hours á alþjóðlegu tónlistarhátíðinni Roskilde Festival. Verk Sóleyjar má finna í einkasöfnum erlendis og Statens Kunstfond í Danmörku.

Heiðar Kári Rannversson

Heiðar Kári Rannversson (b. 1982) er listfræðingur og sjálfstætt starfandi sýningarstjóri. Hann var deildarstjóri við Nordatlantens Brygge í Kaupmannahöfn frá 2018-2022 og verkefnastjóri fræðslu og viðburða á Listasafni Reykjavíkur frá 2013-2016. Undanfarin tíu ár hefur Heiðar Kári unnið fjölmörg rannsóknar- og sýningarverkefni fyrir innlendar og erlendar liststofnanir, m.a. Nýlistasafnið, Hafnarborg, Listasafn Íslands og Myndlistarmiðstöð. Þá hefur hann sinnt stundakennslu við Háskóla- og Listaháskóla Íslands um árabil. Heiðar Kári hlaut MA próf í listrannsóknum frá Háskólanum í Amsterdam árið 2012 eftir BA nám í Listfræði við Háskóla Íslands og Arkitektúr við Konunglega Listaháskólann í Kaupmannahöfn. Hann hefur verið formaður Listfræðafélags Íslands frá árinu 2023.

GDPR Cookie Consent with Real Cookie Banner