Verið hjartanlega velkomin á leiðsögn sýningarstjóranna Brynju Sveinsdóttur og Studio Studio (Arnar Freyr Guðmundsson og Birna Geirfinnsdóttir) um sýninguna Hörð á Safnanótt föstudaginn 6. febrúar kl. 20:00 í Gerðarsafni. Aðgangur ókeypis og öll velkomin!
Hörður Ágústsson (1922-2005) nálgaðist myndlist, hönnun, rannsóknir og kennslu af heildrænni hugsun. Hugsun sem var fjarri því að vera einföld eða línuleg heldur leitaðist við að má út skil á milli ólíkra listgreina til að finna sameiginlegan og margslunginn kjarna sjónmenningar.
Hörður þróaði nálgun sína út frá innblæstri sem hann sótti úr umhverfi sínu og hugmyndafræði um eðli og möguleika sjónlista. Í allri sköpun sinni leyfði hann sér að flæða á milli ólíkra tjáningarleiða, bæði hvað varðar fagurfræði og listgreinar. Í viðtali segir Hörður að hann hafi sveiflast á milli leitarinnar að hinu fullkomna formi og ljóðrænnar tjáningar: „Í mér eru bæði arkitekt og ljóðskáld og þeir eru sífellt að rífast.“
Á sýningunni eru verk Harðar sem birta nálgun hans á form- og litafræði á árunum 1955-1978. Verkin á sýningunni þvera það sem hefðbundið væri flokkað sem myndlist og hönnun og tengja fullkláruð verk, undirbúningsverk og hugmyndavinnu saman. Í þessari formrænu könnun hans má finna það svið þar sem arkitektinn og ljóðskáldið tvinnast hvað mest saman, þar sem rannsakandinn og skaparinn ná saman í heildrænni hugsun um kjarna allrar listar.