Verið hjartanlega velkomin á leiðsögn um Corpus með Snærós Sindradóttur og listamannaspjall Sunnevu Ásu Weisshappel sunnudaginn 26. október kl. 14:00 í Gerðarsafni.
Sunneva Ása Weisshappel hefur beint sjónum að mannslíkamanum í verkum sínum og unnið með skúlptúr, innsetningar, gjörninga og ljósmyndun. Hún vísar ósjaldan í húð, hold og áferð líkamans og máir mörkin milli innra og ytra byrðis,
varnarleysis og styrks. Verk Sunnevu Ásu eru áþreifanleg og kjarna nánd með formum, kvenleika og minni.
Snærós Sindradóttir er eigandi og forstöðumaður SIND gallery. Snærós hefur starfað innan íslenskra fjölmiðla í yfir áratug, fyrst sem blaðamaður og síðar sem stjórnandi og í dagskrárgerð í ljósvakamiðlum. Snærós er með BA gráðu í listfræði frá Háskóla Íslands og Columbia University í New York. Hún er með MA gráðu í Art Management Budapest Metropolitan University.
Líkaminn er lifandi fyrirbæri í sífelldri sveiflu milli sjálfsins og annars, menningar og náttúru, hins séða og óséða. Listamenn Corpus fá okkur til að íhuga hann nánar, með því að nota áferðir, nærveru, efniskennd, litbrigði og framvindu til að takast á við flókin tengsl kyns, kynþáttar, vistfræði og tækni. Hér er líkaminn ekki stöðugur heldur síkvikur og samofinn umhverfi sínu.
Á Corpus má finna verk eftir Arvidu Byström, Herttu Kiiski, Jeanette Ehlers, Klāvs Liepiņš & Renāte Feizaka, Salad Hilowle og Sunnevu Ásu Weisshappel, sem vinna innan efnisleika, vefnaðar, skúlptúrs og ljósmyndunar. Hver á sinn hátt rannsaka listamennirnir tengsl okkar við eigin líkama, bæði í rými og í sambandi við aðrar verur, og stöðu líkamans í framþróunarmiðuðum heimi. Sýningarstjóri er Daría Sól Andrews.
Aðgöngumiði að safninu gildir. Frítt fyrir árskortshafa.