Michael Richardt fremur gjörninginn DA föstudaginn 7. febrúar í Gerðarsafni frá kl. 12-18 og síðan frá kl. 19-23. Verkið er hluti af sýningunni Störu. Öll eru velkomin!
Michael Richardt (f. 1980) er sviðslistamaður sem sérhæfir sig í tímatengdum og langvarandi gjörningum. Heimildamyndin My Mother Is Pink um móður hans var tilnefnd í flokki listrænna heimildamynda á Sheffield Documentary Film Festival og vann Outstanding Excellence Award á Desert Edge Global Film Festival í Indlandi. Richardt hefur unnið fyrir Marina Abramović og kom fram á Louisiana Museum of Modern Art og Henie Onstad Art Centre. Hann hefur sýnt verk sín í Nikolaj Art Gallery, Vraa Exhibition, Listasafni Reykjanesbæjar, Norræna húsinu Nordic og Nitja miðstöð fyrir samtímalist í Noregi. Richardt fer með hlutverk Raphaels í sjónvarpsþáttunum Felix og Klara sem verða sýndir á RÚV í sumar.
Nánar um Störu:
Yfirfull af lífi feta verkin sig í kring um sjálf listafólksins í samsýningunni Stara sem var opnuð í Gerðarsafni sem hluti af Ljósmyndahátíð Íslands.
Manneskjurnar í sýningunni standa berskjaldaðar frammi fyrir áhorfendum. Fólkið býður okkur að koma nær, stara á sig. En þau stara líka til baka, eru síður en svo valdalaus viðföng ljósmyndarans heldur aðalleikararnir í sinni sögu. Við erum velkomin en höfum stigið inn á þeirra yfirráðasvæði. Verkin eru róttæk hvísl og við þurfum að koma inn fyrir til að heyra í óeirðinni. Hún býr í persónulegum frásögnum, sögum heimsins sem sagðar eru frá einstöku sjónarhorni hvers skapara.
Ljósmyndamiðillinn er í aðalhlutverki á sýningunni en ófullkomleiki einkennir margar myndanna þar sem úthugsaðri myndbyggingu og tæknilegri fullkomnun er kastað á glæ til að nálgast einlægni, til að komast nærri lífinu. Hráleikanum er beitt til að fá okkur til að sjá út frá tilfinningalegri vídd, til að sýna okkur orku, tráma, kaos og drama lífsins en líka húmorinn og uppátækjasemina. Hefðbundnar reglur ljósmyndamiðilsins eru brotnar í fölskvalausum óði til miðilsins. Hér er að finna mikla fegurð en þetta er ekki fegurð fagurbókmennta og landslagsmálverks, hér eru drunur og pönktextar, dagbókarfærslur og opin hjörtu, líkamsvessar og berskjöldun sem í ofurmjúkri viðkvæmni sinni verður óbrjótanleg.