Opið í dag

12:00-18:00

Listræn starfsemi Gerðarsafns er mótuð af forstöðumanni Gerðarsafns í samstarfi við ráðgjafarnefnd safnsins. Hlutverk ráðgjafanefndar er að veita faglega ráðgjöf um sýningar- og söfnunarstefnu Gerðarsafns. 

 

Hlutverk og skipan ráðgjafanefndar Gerðarsafns

 

Ráðgjafanefnd Gerðarsafns skal skipuð þremur mönnum auk forstöðumanns Gerðarsafns, sem veitir nefndinni forstöðu. Forstöðumaður Gerðarsafns velur nefndarmenn út frá faglegum forsendum þar sem hæfni, menntun, starfsreynsla, kynjavægi, aldur og annað, sem kann að skipta máli við valið, er haft að leiðarljósi.

Meðal hlutaverka ráðgjafanefndarinnar er að fara yfir sýningartillögur og vera forstöðumanni til ráðgjafar um sýningar- og söfnunarstefnu og innkaup á aðföngum. Starfsemi nefndarinnar er á ábyrgð forstöðumanns Gerðarsafns og er nefndin bundin trúnaði í störfum sínum fyrir safnið.

Forstöðumaður Gerðarsafns leggur fram til samþykktar fyrir Lista- og menningarráð Kópavogsbæjar starfsreglur og starfsskyldur nefndarinnar þar sem einnig er tilgreint hvernig vinnuskyldu nefndarmanna er háttað utan funda. Forstöðumaður Gerðarsafns boðar til nefndarfunda samkvæmt skipulagðri dagskrá með minnst tveggja daga fyrirvara. Forstöðumaður menningarmála Kópavogs er boðaður til nefndarfunda en er óbundinn af því að sitja alla fundi nefndarinnar.

Gert er ráð fyrir að nefndin komi saman fjórum sinnum á ári en að hámarki fimm sinnum. Launakjör nefndarmanna eru ákvörðuð af Lista- og menningarráði og eru gjaldfærð á Gerðarsafn. Nefndarmönnum er greitt fyrir þá fundi sem þeir sitja. Forstöðumaður Gerðarsafns ritar fundargerðir sem lagðar eru fyrir Lista- og menningarráð. 

Skipan nefndarinnar er háð samþykki Lista- og menningarráðs. Starfstími nefndarinnar er til eins árs í senn með möguleika á framlengingu í eitt ár. Allar stórvægilegar tillögur nefndarinnar, eins og innkaup listaverka, skal bera undir Lista- og menningarráð til samþykktar áður en ákvörðun liggur fyrir.

Starfandi ráðgjafanefnd Gerðarsafns skipa Eggert Pétursson, Katrín Elvarsdóttir og Sindri Leifsson auk starfandi forstöðumanns, Brynju Sveinsdóttur.

Söfnunar og innkaupastefna Gerðarsafns

Gerðarsafn safnar myndlistarverkum í samræmi við markmið sem tilgreind eru hér að neðan:

Að safna verkum eftir viðurkennda listamenn sem endurspegla strauma og stefnur samtímans.

Að safna verkum eftir listamenn sem sýna í Gerðarsafni og endurspegla þannig sýningarstefnu og samband safnsins við samtímann.

Að viðhalda og fylla í sérsöfn í safneigninni þ.e. Gerði Helgadóttur, Barböru og Magnús Á. Árnason og Valgerði Briem og skal þannig stuðla að sem bestu og heildstæðustu safni verka listamannanna.

 

Engar takmarkanir skulu vera á þeim miðlum sem verkin eru unnin í, heldur skal einungis tekið mið af listrænu gildi þeirra.

Mynd: Sýningin Geómetría 

GDPR Cookie Consent with Real Cookie Banner