Opið í dag

12:00-18:00

PARABÓLA | Finnbogi Pétursson

30.10.2024
–19.01.2025
Parabola-scaled

Flökt. Sveifla. Púls. Taktur. Tími.
Allt í kringum okkur eru eðlisfræðilegir kraftar að verki. Finnbogi Pétursson hefur gert það að ævistarfi sínu að skapa aðstæður þar sem áhorfandinn tekur eftir, skynjar, þessa krafta. Oft í gegnum bylgjur, sem heyrast stundum en í öðrum verkum sjást. Í Parabólu gerir hann takt Jarðar sýnilegan. Listamaðurinn notar hljóð en það ómar ekki heldur skapar hreyfingu. Hljóðið gárar vatnið eins og ósýnilegur dropi sem fellur og kemur af stað bylgjum sem ferðast eftir vatnsfletinum. Með hætti sem einskorðast við þessa plánetu.

“Það er ekki hægt að breyta bylgjunum mikið, í ljósi aðdráttaraflsins og áhrifa himintunglanna sem eru að verki hér á Jörðinni,” segir Finnbogi.

Gárurnar eru í takti. Sínusbylgjur púlsa yfir afmarkaðan flöt vatnsins sem er rammað inn í ílangar laugar. Ljósið varpar hreyfingu vatnsins upp svo við sjáum hana í efni sem við leiðum hugann sjaldan að, loftinu sem umlykur okkur. Þegar ljósið hittir bylgjuna í hámarki sínu sjáum við hana sem skæra ljósrák en í lágmarki hennar myndast skuggi. Þegar bylgjurnar endurkastast af grensunum sem listamaðurinn hefur sett þeim umbreytast þær í negatíft form sitt. Negatífan og pósitífan dansa saman og mynda ný munstur. Tíðni bylgjanna er sjónræn, við sjáum þær mætast, ekki brotna heldur mynda ný munstur eða jafnvel lygnu.

Þetta er ekki hvaða púls sem er heldur er þetta sveiflan sem efni leitast við að vera í. Listamaðurinn notar vatn, loft, ljós og hljóð sem efni til að forma. Notar þekkingu mannsins á eðlisfræðilögmálum Jarðarinnar til að stýra efnum sem erfitt er að eiga við. Við þekkjum þennan takt, hann býr innra með okkur. Þegar við orkum á heiminn gerum við það iðulega í takt við þessar sveiflur hans. Hvort sem við ýtum barni í rólu, stillum flugvélahreyfla, hrærum í baðvatni eða sveiflum hverju sem er.

„Við reynum að lifa þannig að við séum í réttir sveiflu, að hún sé okkar. Ég fylgdist með dóttur-dóttur minni þegar hún var að læra að róla og hvernig hún fann nákvæmlega hvenær hún átti að setja niður tána til að viðhalda hreyfingunni. Þetta er okkur svo eðlilegt. Viðhald á hreyfingu er það sem við leitum að til að sem minnst orka fari í að viðhalda flæðinu.“ 

Í rúmfræði er parabóla eitt af þremur sniðum keilu. Keilan er hér ljóskeila, þríhyrningur og uppruni jafnhendrar bylgju, eins og þeirra sem við sjáum munstra loftið. Í forvitni um grunnlögmál eðlisfræðinnar nýtir listamaðurinn þekkingu mannsins á náttúrufyrirbærum Jarðar til að skapa upplifun á þeim. Með því að kryfja formið býr hann til sneiðmynd af ferlum sem við þekkjum – kannski án þess að átta okkur á því. En hér er samt ekki ætlast til neins af okkur nema að skynja. Gefa okkur tíma, sem skiptir öllu máli, í öllu.

“Ég er bara að eltast við grunnform frá mismunandi hliðum.”

Verk Finnboga eru falleg. Þau virðast næstum einföld. Þar liggur galdurinn, í útreiknaðri einangrun lögmálanna og formun viðsjárverðra efna. Framsetningin er hrein og bein, búið að fjarlægja allt sem ekki þjónar hugmyndinni, búa til ofurstýrt umhverfi, einskonar leiksvæði fyrir eðlisfræðileg fyrirbæri. Kerfi sem umkringja okkur eru eimuð niður í einn sýningarsal. Við erum umlukin náttúrufyrirbærum í sýningunni en erum á sama tíma svo fjarri náttúrunni, rétt eins og hlutar úr eðli hennar hafi verið sóttir og sett á stall. Svo við getum tilbeðið þau í næði.

GDPR Cookie Consent with Real Cookie Banner