Opið í dag

12:00-18:00

Barbara Árnason

Beinagrindur fugla „Danse Macabre“

1932
Efni Safneign

Barbara Moray Árnason fæddist í Suður-Englandi en kom til Íslands árið 1936 með eiginmanni sínum og listamanninum Magnúsi Á. Árnasyni, en þau fluttust síðan í Kópavoginn árið 1959. Yfirlitssýning á verkum Barböru var opnuð á Gerðarsafni árið 2011. Listakonan var mikill brautryðjandi í þrykklist hér á landi og má segja að hún hafi átt stóran þátt í að leggja grunn að íslenskri svartlist. Barbara var afar sjálfstæð, fór sínar eigin leiðir og aðhylltist ekki ákveðinni listastefnu á ferlinum. Á sumrin fór Barbara í ferðalög um landið í leit að innblæstri fyrir myndefni og er oft að finna vísun í náttúruna í verkum Barböru.

Tréstungan (xylografían) er vandasamt listform sem unnið er í endavið. Eitt af því sem gerir tréstungur vandasamt listform er það að aðeins er hægt að teikna útlínur verksins í viðinn en annað þarf að móta jafnóðum með hnífi. Það er því lítið sem ekkert svigrúm fyrir mistök.

Í verkinu Beinagrindur fugla „Danse Macabre“ blómstrar einstakur hæfileiki Barböru að ná fram mikilli nákvæmni og næmni í tréstungum sínum. Danse Macabre (dauðadansinn) er persónugerving dauðans og birtist hann oftast í listasögunni sem dans þeirra lifandi með þeim dauðu.

Í safnbúð Gerðarsafns má finna eftirprent af verkinu á hágæða pappír ásamt öðrum verkum eftir Barböru.

GDPR Cookie Consent with Real Cookie Banner