Verkið Japanskur dans er málað með olíu á striga og er 85 x 95 cm að stærð. Verkið er afar kröftugt og leika bjartir litir skemmtilega saman í verkinu.
Jóhannes Jóhannesson var listmálari og gullsmiður. Hann fæddist árið 1921 í Reykjavík og lést 1998. Jóhannes var við nám í Frakklandi, Bandaríkjunum og Ítalíu þar sem hann lærði myndlist.
Hann hefur tekið þátt í hinum ýmsu samsýningum og verið með einkasýningar eins og t.d. á Listasafni Íslands og Gerðarsafni.
Jóhannes sat í safnaráði Listasafns Íslands frá árunum 1965-73 og var starfsmaður safnsins frá 1973 – 1991 og hafði umsjón með uppsetningu nýrra sýninga á safninu.
„Liturinn í verkum Jóhannesar í ríkulegum blæbrigðum hefur jafnframt oft á tíðum ríka skírskotun til náttúrunnar. Í mörgum verkum hans og þá sérstaklega frá seinni árum búa formin jafnframt yfir þeirri tvíræðni að umbreytast í þekkjanleg tákn og skírskjóta til ljóðrænna minninga, brot af fugli, manni eða birtu.” Þetta skrifar Ólafur Kvaran um Jóhannes í minningargrein í Morgunblaðinu.