Opið í dag

12:00-18:00

Gerður Helgadóttir

 Komposition

1952
Efni Safneign
Stærð  64 x 77 x 42,5 cm

„Gerður hefur þegar náð miklum listrænum árangri í átökunum við járnið; þetta stílhreina efni, sem virðist bjóða ótæmandi tækifæri til fjölbreytni í formi og línum. Þetta er myndlist nútímans, þegar járn- og stálkonstruktionir blasa hvarvetna við augum, hvort sem bifreið fer um götu eða bogabrú gnæfir yfir gljúfur.” Þetta mátti lesa um listsköpun Gerðar í Alþýðublaðinu frá árinu 1952.

Gerður nefndi nokkur af abstrakt járnverkum sínum Komposition. Þetta verk er frá árinu 1952 og er úr járni. Það er 64 x 77 x 42,5 cm að stærð. Það kom inn í safneignina árið 1977 og er hægt er að sjá verkið á grunnsýningu Gerðar á neðri hæð safnsins ásamt fleiri verkum úr safneigninni. Járnverk Gerðar voru ákveðin tímamótaverk í íslenskri myndlist að mati Guðbjargar Kristjánsdóttur listfræðings.   

Listakonan var afar ung þegar hún fór að logsjóða járn sjálf og mennta sig í hvernig vinna ætti með járn. Með járninu náði Gerður fram fíngerðum formum og hægt að teygja járnið og sveigja. Tómarúmið inn í verkinu öðlast jafn mikla merkingu og formið, sem er það sem einkennir gjarnan járnverk Gerðar. Gerður málaði svo járnverk sín svört á litinn.

Gerður Helgadóttir fæddist árið 1928 og lést 1975 og því var listrænn ferill Gerðar fremur stuttur, eða um 30 ár. Þrátt fyrir stuttan feril skildi hún eftir sig gífurlegan fjölda listaverka. Hún var búsett í París mestallan starfsferil. Eins og margir vita vann Gerður með ýmis efni í listsköpun sinni og er óhætt er að segja að sköpunarkraftur og afburða listrænir hæfileikar hafi verið hennar náðargáfa. 

GDPR Cookie Consent with Real Cookie Banner