Sigurlaug Jónasdóttir (1913-2003) sem oftast var kölluð Lauga, skapaði naívísk verk þar sem myndbyggingin er sterk og auga hennar fyrir litum er virkilega gott. Sigurlaug fæddist í Öxney á Breiðafirði og missti móður sína þegar hún var einungis 14 ára og þurfti að hugsa um 12 börn á heimilinu. Mögulega hefur þetta haft áhrif á listsköpun hennar þar sem að verk hennar sýna oft mikið af fólki og mikið líf. Mörg verk Sigurlaugar sýna frá störfum þar sem fólk vinnur með höndunum, oft erfiðisvinnu. Það skín ákveðin barnsleg einlægni í gegn í verkum hennar. Hún starfaði sem hússtjórnarkennari eftir að hafa lært hússtjórnarfræði í Noregi. Hún lærði einnig í Myndlistarskóla Reykjavíkur og var Hringur Jóhannesson kennari hennar.
Skáldsagan Kristnihald undir jökli er eitt merkasta verk Halldórs Laxness og fjallar hún um umboðsmann biskups sem fer að kanna kristnihald undir jökli. Eins og margir þekkja var gerð kvikmynd um skáldsöguna. Naívísk nálgun Sigurlaugar í verkinu er sterk þar sem að fólkið sem sýnt er á myndinni er bókstaflega undir eða inni í jöklinum. Margt er í gangi í verkinu, t.d. sjómenn á tali og fínt kaffiboð. Ákveðinn ævintýralegur blær er yfir verkinu. Fjallað var um Sigurlaugu í bókinni Einfarar í íslenskri myndlist og sömuleiðis á sýningu í Hafnarborg þar sem sýnd voru verk hennar og annarra „einfara“.