Opið í dag

12:00-18:00

Gerður Helgadóttir

Liggjandi kona

Efni Safneign

„Bera þessi fyrstu verk Gerðar vitni um verulegan þroska stúlku innan við tvítugt. Eins koma þegar fram skapgerðarþættir eins og vinnusemi, þrautseigja og ákveðni sem áttu eftir að einkenna listakonuna á hennar stutta en afkastamikla ferli.” Þetta skrifar listfræðingurinn Ásdís Ólafsdóttir.

Gerður (1928-1975) kynntist fyrst höggmyndalist þegar hún var 18 ára gömul og fór hún strax að móta sjálf í leir og höggva í grágrýti. Gerður hafði verið að höggva í grástein í fjörunni í Laugarnesinu allt sumarið árið 1947 af mikilli vinnusemi. Sigurjón Ólafsson kom við hjá henni um sumarið og leiðbeindi Gerði um notkun áhalda til steinhöggs og fleira.

Gerður fór til náms í Flórens og hlaut þar menntun í klassískri höggmyndagerð. Hún var fyrst íslenskra myndlistamanna til þess að fara út til Flórens í nám. Gerður var undir handleiðslu Romano Romanelli í Accademia di Belle Arti. Hún staldraði ekki lengi við í Flórens og fór til Parísar til þess að læra nútíma höggmyndalist. Í París bjó Gerður stærstan hluta starfsævi sinnar og töldu franskir listgagnrýnendur hana vera meðal áhugaverðustu myndhöggvara í borginni á þeim tíma. Gerður var mjög sjálfstæð kona og frumkvöðull í glerlist hér á landi.

Verkið „Liggjandi kona“ er frá árunum 1947- 48, gert úr stein og gifsi og er 69 x 112 x 50 cm að stærð. Það kom inn í safneign árið 1977 og var það partur af veglegri gjöf frá erfingjum Gerðar.

GDPR Cookie Consent with Real Cookie Banner