Gerður Helgadóttir (1928-75) gerði þó nokkrar lágmyndir á ferlinum en lágmynd er höggmynd á flötu yfirborði svo að myndin virðist koma út úr bakgrunninum. Abstrakt lágmyndin sem hér má sjá er bæði til úr bronsi og einnig úr gifsi.
Listrænn ferill Gerðar var fremur stuttur, eða um 30 ár, en þrátt fyrir það skildi hún eftir sig gífurlegan fjölda listaverka. Eins og margir vita vann Gerður með ýmis efni í listsköpun sinni og er óhætt er að segja að sköpunarkraftur og afburða listrænir hæfileikar hafi verið hennar náðargáfa. Í viðtali árið 1954 sagði Gerður: „ekki skiptir máli í hvaða stíl menn vinna, því stíllinn er aðeins ytra form.“
Erfingjar Gerðar færðu Kópavogsbæ árið 1977 um 1400 listaverk úr dánarbúi listakonunnar en hún lést árið 1975 aðeins 47 ára að aldri. Skilyrði fyrir gjöfinni var að Kópavogsbær skyldi byggja listasafn, sem tengdist nafni Gerðar, geymdi og sýndi verk hennar og héldi að öðru leyti minningu hennar á lofti.
Í safnbúð Gerðarsafns má finna afsteypur af þremur lágmyndum Gerðar Helgadóttur.