Hringlaga form og sterk bygging er í skúlptúrnum Þögn II. Árið 1966 fór Gerður til Egyptalands og verður hún fyrir sterkum áhrifum þar. Eftir að hún kemur heim eiga höggmyndir hug hennar. Glerið í miðju verksins er líkt og augasteinn í auga. „Augað alsjáandi” notar Gerður í nokkrum verkum sínum eftir ferð sína til Egyptalands og vekur það gjarnan upp dulúð hjá áhorfendum.
List Gerðar var án efa undir áhrifum af spíritískum fræðum og eflaust meira en margir gera sér grein fyrir. Verkið Þögn I er frá árinu 1968 úr gleri og steinsteypu. Skúlptúrinn er í tveimur hlutum og er stærð verksins 42,6 x 44,5 x 42 cm. “Augað” hvílir á stoð úr steypu og ákveðinn stöðugleiki og festa myndast í verkinu. Mikill leyndardómur og dulúð er yfir þögninni. Hún gerði einnig skúlptúra sem bera heitið Þögn I og Þögn III og eiga þeir allir í sterku samspili.
Gerður skapaði ófáa skúlptúra á sínum listræna ferli, ýmist úr bronsi, kopar, steypu og gifsi. Í upphafi sjöunda áratugs á síðustu öld tóku höggmyndir Gerðar að breytast og verður efnisnotkun hennar fjölbreyttari eftir að hafa unnið nánast eingöngu með málma. Í ævisögu Gerðar kemur fram að henni hefði þótt vænst um bronsið og kopar, þá einnig að blanda því saman. Henni þótti plast vera dautt efni og vildi því ekki vinna með það. Gerður bjó stærstan hluta starfsævi sinnar í París og töldu franskir listgagnrýnendur hana vera meðal áhugaverðustu myndhöggvara í borginni á þeim tíma sem var mikil viðurkenning.