Verkið Kompósisjón kom inn í safneign Gerðarsafns árið 2001. Um er að ræða verk málað með gvasslitum á pappír og er verkið 39 x 31 cm að stærð.
Listamaðurinn Valtýr Pétursson (1919-1988) var óhræddur við fjölbreytni í litavali og notaði hann gjarnan andstæða liti og jarðliti á móti svörtum og hvítum. Það má segja að Valtýr Pétursson sé þekktastur fyrir abstrakt verk sín en hann málaði fígúratíft samhliða abstraktinu. Mikið af geómetrísku myndunum sem Valtýr málaði í byrjun sjötta áratugarins sóttu margar innblástur í form á skipum. Siglingar, skip og bátar höfðu óneitanlega mikil áhrif á listsköpun Valtýs, í fígúratífum og abstrakt verkum.
Hann var virkilega afkastamikill málari og einn af brautryðjendum abstrakt málverksins á Íslandi. Eftir hann liggja um 2.400 verk, teikningar, olíumálverk, dúkristur, vatnslitaverk, mósaík og gvassverk. Valtýr var mikill heimsborgari og stundaði nám meðal annars í Boston, Flórens og París. Hann var einn af stofnendum og þátttakendum hinna rótæku Septembersýninga og sýndi Valtýr strangflatarverk sín á Septembersýningunni árið 1951. Frá árinu 1952 tók Valtýr við starfi sem gagnrýnandi hjá Morgunblaðinu og sinnti hann því samviskusamlega og skrifaði hann um 900 greinar.