Yfirlitssýning með verkum Guðrúnar Bergsdóttur (1970-2024) opnar í Gerðarsafni 30. apríl 2025 í sýningarstjórn Hildigunnar Birgisdóttur.
Guðrún Bergsdóttir vann útsaumsverk og tússverk eftir eigin stílbrigði með ótrúlegum tökum á litanotkun og samspili formfestu og formleysu. Verk hennar þróuðust frá beinum línum og stórum ferningum yfir í smærri og lífrænni form þar til formfestan nánast hvarf uns hún setti einungis eitt krosssaumsspor í hverjum lit á flötinn. Í yngstu verkum Guðrúnar iðar flöturinn af lífi.
Guðrún fæddist í Reykjavík árið 1970 og vann 66 útsaumsverk á 18 ára tímabili. Hún byrjaði að vinna við myndlist eftir þrítugt og fór þá að nota nál, garn og striga á persónulegan hátt og byrjaði að sauma þær myndir sem hún er hvað þekktust fyrir. Hún vann beint á strigann, spor fyrir spor, flöt fyrir flöt, án forskriftar. Áður hafði Guðrún unnið teikningar, munstur með tússi á pappír sem svipar um margt til útsaumsmynda hennar.
Guðrún sýndi verk sín margoft á vettvangi Listar án landamæra og á söfnum og sýningarstöðum frá árinu 2003 til ársins 2023 en hún var listamanneskja Listar án landamæra árið 2011. Hún hélt bæði einkasýningar og tók þátt í samsýningum á ferli sínum og tókst með stórbrotnum verkum sínum að kljúfa sýnilega og ósýnilega múra okkur öllum til góðs.
Samhliða sýningunni kemur út bók á vegum fjölskyldu Guðrúnar um feril og verk listakonunnar.
Byggt á grein eftir Margréti M. Norðdahl