Opið í dag

12:00-18:00

Að afmiðja hvítleika í listum

Að rekja brot
29.03.2023
12:15
–13:00

Chanel Björk Sturludóttir, baráttu- og fjölmiðlakona, fjallar um afmiðjun hvítleikans í listum í tengslum við sýninguna Að rekja brot (Tracing Fragments). Aðgangur er ókeypis og öll hjartanlega velkomin á meðan húsrúm leyfir.

Þegar rætt er um kynþáttahyggju er áhersla lögð á þau sem dvelja á jaðrinum í samfélaginu vegna uppruna eða kynþáttar. Þessir einstaklingar verða fyrir öðrun því þau tilheyra ekki yfirráðandi hópi samfélagsins. Þau eru ekki hvít. Hvítleiki er staðallinn sem samfélagið okkar byggist á. Stofnanir, kerfi og ríkjandi hugmyndir í samfélaginu taka mið af reynsluheimi hvítra á meðan að tilvist annarra færist út á jaðarinn.

Athygli hefur verið vakin á því að fjölbreytileikinn endurspeglist ekki nægilega vel í listum hérlendis. Þegar hvítleiki í listum er skoðaður verður mismunun og ójafnrétti í því hver hafa aðgengi að listarýmum ljós. Hvaða líkamar fá að skapa? Hver geta endurspeglað sig í þeim ímyndum sem eru sýnileg í listum?

Að rekja brot (Tracing Fragments) er samsýning listamanna frá Íslandi, Mexikó, Pakistan, Bandaríkjunum, Grænlandi, Danmörku, Noregi, Nígeríu, og Finnlandi; Kathy Clark, Frida Orupabo, Abdullah Qureshi, Sasha Huber, Hugo Llanes, og Inuuteq Storch. 

Á afar ólíkan máta skoða þau hvernig þjóðerni tengist sjálfsmyndinni, að hvaðan við komum sé uppspretta persónuleikans. Verkin þeirra eiga það sameiginlegt að rannsaka flókna sögu nýlendu- og kynþáttaofbeldis, gagnrýna og endurskrifa frásagnir um kúgun og eignarnám og endurheimta hugtök eins og yfirvald og fórnarlamb.

Með því að vefa, sauma, mynda, og skeita saman endurheimta listamennirnir sögulegar aðferðir við handverk, ljósmyndun og heimildasöfnun. Hver og einn listamaður á sinn eigin frumlega máta rannsakar sína eigin sögu, endurskrifar og opnar á samtal um áður þaggaðar frásagnir þeirra kúguðu.

Markmið sýningarinnar er að vera uppspretta samtals og rýna í sögur um landnám, þrælahald, kynþáttafordóma, kúgun og eignarnám. Tracing Fragments varpar ljósi á frásagnir þeirra sem kúgaðir voru og gefa þeim rödd til að skrifa sína eigin sögu í gegnum ólíka listræna miðla. 

Sýningin er styrkt af Nordic Culture Fund.

GDPR Cookie Consent with Real Cookie Banner