Opið í dag

12:00-18:00

Leiðsögn listamanna | Emma og Ragnheiður

10.03.2024
14:00
–15:15

Verið hjartanlega velkomin á leiðsögn með Emmu Heiðarsdóttur og Ragnheiði Gestsdóttur sunnudaginn 10. mars kl. 14:00.

Sýningin birtir ljósmyndir Ívars Brynjólfssonar í samtali við verk Emmu Heiðarsdóttur, Haraldar Jónssonar, Joe Keys, Kristínar Sigurðardóttur, Lukas Kindermann, Ragnheiðar Gestsdóttur og Tine Bek. Listamenn sýningarinnar eiga það sameiginlegt að veita ákveðnum hlutum ítrustu athygli, brengla hversdaginn með því að fletja hann út eða umbreyta með öðrum hætti. Á sýningunni myndast samtal á milli myndaraða Ívars frá árunum 1991-2023 við skúlptúra, vídeóverk, ljósmyndaverk og innsetningar sem einnig spretta úr skynjun mannverunnar á umhverfi sínu.

Upphafið að sýningunni liggur í ljósmyndinni sem er könnuð í gegnum verk í öðrum miðlum. Líkt og ljósmyndin hafi teygt sig of langt upp úr flatneskjunni og umbreyst í eitthvað annað.

Emma Heiðarsdóttir (f. 1990) nam myndlist við Listaháskóla Íslands 2010-13 og stundaði framhaldsnám við listaakademíuna í Antwerp, þaðan sem hún útskrifaðist 2018. Árið 2020 hlaut hún tilnefningu til hvatningarverðlauna Íslensku myndlistarverðlaunanna fyrir einkasýninguna Jaðar í D-sal Listasafns Reykjavíkur. Auk þess hafa verk Emmu meðal annars verið sýnd í Ásmundarsal, Y galleríi, i8 galleríi, Gallerí Úthverfu, Kling & Bang, Gerðarsafni, Kunsthall Oslo og Einstein Kultur í München.

Ragnheiður Gestsdóttir (f. 1975) vinnur með ólíka miðla; innsetningar, skúlptúr, ljósmyndir og kvikmyndir. Hún lauk MFA námi í myndlist frá Bard College 2012 og MA námi í sjónrænni mannfræði frá Goldsmiths College 2001. Verk hennar hafa verið sýnd víða hérlendis og í ólíkum rýmum og galleríum í Skandinavíu og BNA, til dæmis hjá Cecilia Hillström-galleríinu og Göteborgs Konsthall í Svíþjóð, hjá Soloway-galleríinu í New York og Southeastern-nýlistamiðstöðinni í Norður Karólínu. Þau er að finna í safneign stærstu safnanna á Íslandi sem og í einkasöfnum heima og erlendis.

GDPR Cookie Consent with Real Cookie Banner