Opið í dag

12:00-18:00

Valgerður Briem

Blómamyndir

1977
Efni Safneign

Listakonan og myndlistarkennarinn Valgerður Briem (1914-2002) nam myndlist í Svíþjóð á árunum 1945-1947. Hún kenndi við myndlista- og handíðaskólann og Austurbæjarskóla. Ásamt því að kenna sinnti Valgerður list sinni að kappi og skapaði hún m.a. ótal teikningar og vatnslitamyndir. Verk hennar urðu aldrei mjög þekkt meðal almennings. Valgerður var þekkt fyrir mikinn metnað og frumleika í kennslustofunni og minntist Gerður G. Óskarsdóttir Valgerðar í minningargrein eftir að hún lést: “Sköpunin hafði yfirhöndina í skólastofunni. Oft var borðum raðað saman eða gólfið notað til að geta teiknað, málað eða límt klippimyndir á stóra fleti til að skapa nýja heima og ef ekki var pláss í stofunni var farið fram á gang. Það urðu til indjánaþorp, sveitabyggðir, sjávarþorp og gróðurlendur. Stundum vorum við í teiknistofu skólans sem Valgerður lét innrétta að sínu höfði þegar hún hóf störf við skólann sem myndmenntakennari á fyrstu árum Austurbæjarskóla. Þar var allt fullt að litum, allskonar efnum, basti, pappa og dollum og borðin voru af sérstakri gerð.”

Rósin 1, Morgunfrú 14 og Rósin 2 eru heitin á verkunum í þeirri röð sem þau birtast. Valgerður gerði ófáar myndir af blómum, illgresi og plöntum sem eru hver annarri fegurri. Sumar málaði hún í lit og aðrar ekki. Það mætti segja að blómamyndir Valgerðar séu hlýjar, heimilislegar og gefi frá sér góða orku. Litirnir í verkunum fara einstaklega vel saman og skapa ákveðna dýpt. Það má sjá í verkinu “Morgunfrú 14” hvernig Valgerður málar ekki öll blöðin í blóminu og heldur ekki rótina á því. Blóm gleðja og skapa ákveðna ró, þau geta bætt skap okkar í hversdagsleikanum og er óhætt að fullyrða að blómamyndir Valgerðar gera það einnig.

GDPR Cookie Consent with Real Cookie Banner