Opið í dag

12:00-18:00

Guðmunda Andrésdóttir

Án titils.

1975
Efni Safneign
Stærð  90 x 85cm

Guðmunda (1922-2002) var leiðandi listamaður í íslenskri abstraktlist. Hún var einstaklega hæfileikarík myndlistarkona sem öðlast hefur mikinn virðingarsess í íslenskri listasögu. Listsköpun hennar tilheyrði geometrískri abstraktsjón og mátti sjá mikilvægt framlag hennar til listhreyfingarinnar á sýningunni Geómetría, sem var sýnd í Gerðarsafni í lok ársins 2022. Sýning Svavars Guðnasonar í Listamannaskálanum árið 1945 var það sem vakti áhuga Guðmundu á myndlist. Litavalið og hinn mikli kraftur sem hún skynjaði í myndum Svavars urðu til þess að Guðmunda ákvað að verða myndlistarkona.

Guðmunda stundaði nám í bæði París og Stokkhólmi. Hún hefur tekið þátt í mörgum samsýningum á Íslandi og erlendis og hélt hún sína fyrstu einkasýningu í Ásmundarsal árið 1956. Guðmunda tilheyrði September hópnum svonefnda sem var hópur íslenskra abstraktmálara. Hópurinn var umdeildur, en mörgum Íslendingum þótti það ekki vera myndlist ef ekki væri landslag að sjá í myndinni. Guðmunda minnist meðal annars á mikla andúð sem skapaðist á abstraktmálurum hér á landi, þegar þeir komu fyrst fram á sjónarsviðið, í viðtali við Ólaf Gíslason. Viðtalið var tekið í tilefni af 40 ára starfsafmæli myndlistarkonunnar og yfirlitssýningar á verkum hennar á Kjarvalsstöðum árið 1990. Guðmunda tók þátt í sýningu September hópsins árið 1952 ásamt því að vera í nýja September hópnum á árunum 1974-1988. Hún var eina myndlistarkonan sem sýndi með hópnum. Guðmunda hélt því fram að listsköpun sín fæli í sér rannsókn á hreyfingu, formi og litum.

GDPR Cookie Consent with Real Cookie Banner